Ragnar Þór Ingólfsson formaður VR skrifar:

Nú hefur HB Grandi sagt upp 86 starfsmönnum á Akranesi í hagræðingarskyni þrátt fyrir milljarða hagnað síðustu ára.

Samtals eiga átta lífeyrissjóðir 38,08% hlut í HB Granda með beinum hætti.

Samanlögð árslaun stjórnenda sjóðanna sem fara með hlutinn, samkvæmt ársreikningum, voru 563.607.000 kr. Á síðasta ári. Lesið einnig: http://kvennabladid.is/2017/03/28/med-lifin-i-lukunum/

Höfum hugfast að hæstu taxtar fiskvinnslufólks eru 277.970 kr. á mánuði fyrir utan bónusa.

Ef við setjum það í samhengi við arðgreiðslur til eigenda fyrirtækja í sjávarútvegi og laun stjórnenda þeirra lífeyrissjóða sem eiga í hlut hljótum við að geta gert kröfu um að það verði leitað allra mögulegra leiða til að verja þessi störf og lífsafkomu þessa fólks.

Þetta eru okkar sjóðir sem fara með okkar peninga í að kaupa stóra hluti í þessum fyrirtækjum sem aftur sýsla með auðlindirnar okkar. Getum við gert kröfu um að fyrirtækin fari að lögum um byggðastefnu og taki tillit til samfélagslegra þátta í stað þess að vera með hausinn fastan á bólakafi ofan í Excel skjölum eða í einhverju frekjukastinu taki ákvörðun sem setur líf og afkomu hundruð einstaklinga í algjöra óvissu.

Eigum við sjóðfélagar að krefjast þess að skrifstofur stjórnenda HB Granda verði fluttar á bóndabæ í Ófeigsfirði vegna lægri húsnæðiskostnaðar? Við getum boðið þeim sem vilja áframhaldandi vinnu þar. Kannski svolítið ýkt dæmi en samt ekki því þetta er í raun alveg jafn fjarstæðukennt að ætla einstæðu foreldri að keyra milli Reykjavíkur og Akranes til að sækja sér vinnu, sérstaklega miðað við þau launakjör sem í boði eru.

Það er okkar sjóðfélaga að ákveða hvert hlutverk lífeyrissjóðanna er og hvort við viljum að þeir taki þátt í að móta samfélagið og uppbyggingu þess með bætt lífskjör heildarinnar að leiðarljósi.

Almenningur hefur engin ítök í sjóðunum og vilji sjóðanna, ASÍ/SA í að beita sér fyrir samfélagslegum langtímahagsmunum heildarinnar er borin von.

Ég mun því setja alla mína krafta á næstu misserum í að beita mér fyrir því að lög verði sett á Alþingi um að sjóðfélagar kjósi stjórnir lífeyrissjóða.

Birtist fyrst í Kvennablaðinu.

Comments

comments