Vilhjálmur Birgisson skrifar:

Eins og allir vita hefur fyrirkomulag við stjórnun fiskveiða gert það að verkum að heilu byggðarlögin vítt og breitt um landið liggja í blóði sínu eftir að einstaklingar sem hafa tímabundinn umráðarétt yfir auðlindum hafsins hafa tekið ákvarðanir um að selja aflaheimildir eða færa veiðar og vinnslu úr einu byggðarlagi yfir í annað.

Þetta höfum við horft upp á um allt land, allt frá Vestfjörðum, á Norðurlandi, Austfjörðum, Vesturlandi og svo framvegis. Nýjasta dæmið er málið er lýtur að HB Granda þar sem fólk er svipt lífsviðurværi sínu og byggðarlagið sett í algjört uppnám og óvissu.

Á þeirri forsendu velta menn því fyrir sér hvað er hægt að gera til að sporna við þessari óheillaþróun. Og hvað þýðir 1. greinin í lögum um stjórnun fiskveiða?

En 1. greinin hljóðar svona.

„Nytjastofnar á Íslandsmiðum eru sameign íslensku þjóðarinnar. Markmið laga þessara er að stuðla að verndun og hagkvæmri nýtingu þeirra og tryggja með því trausta atvinnu og byggð í landinu. Úthlutun veiðiheimilda samkvæmt lögum þessum myndar ekki eignarrétt eða óafturkallanlegt forræði einstakra aðila yfir veiðiheimildum.“

Nú tel ég lag fyrir ráðamenn og Alþingi Íslendinga að sýna í verki að 1. greinin í lögum um stjórnun fiskveiða hafi einhverja þýðingu fyrir almenning í þessu landi og hinar dreifðu byggðir. Hvað þýðir það sem kemur fram í 1. grein laganna að „tryggja með því trausta atvinnu og byggð í landinu“? Er þetta virkilega bara grein í lögunum sem enga þýðingu hefur? Nei, fjandakornið.

Það sem Alþingi Íslendinga getur gert núna er að sýna handhöfum kvótans með afgerandi hætti að nú sé komið nóg. Það er hægt að gera með því að þegar aflaheimildir verða auknar á nýjan leik þá renni sú aukning til þeirra byggðarlaga vítt og breitt um landið sem hafa þurft að þola það ofbeldi sem fiskveiðistjórnunarkerfið hefur leitt af sér.

Þetta væri kjörin leið til að sýna kvótagreifunum að þessi framkoma verði ekki liðin og 1. grein um stjórnun fiskveiða gerir Alþingi algjörlega kleift að láta aukningu á aflaheimildum renna til sveitarfélaga sem hafa þurft að þola mikinn atvinnumissi og minnkandi tekjur.

Allavega er útilokað fyrir okkur sem þjóð að horfa upp á þetta átölulaust stundinni lengur enda blæðir landsbyggðinni vítt og breitt um landið illilega vegna þessa fyrirkomulags.

Comments

comments