Í Kast­ljósi í byrjun júní kom fram að með­alarð­semi eigin fjár skráðra dag­vöru­fyr­ir­tækja sé um 11% í Banda­ríkj­unum og um 13% í Evr­ópu, en á Íslandi sé hún um 35-40%. Þetta eru tölur sem byggðar eru á gögnum frá skráðum félögum. Vill nú svo til að Hagar eru eina skráða félagið í dagvöru rekstri. Þannig að 35 til 40% ávöxtun á eigið fé er þeirra ávöxtun.

Margir hafa velt þessari háu arðsemi fyrir sér og ýmis orð fallið í því samhengi. Sá sem þetta skrifar varð vitni að samræðum í heita pottinum þar sem það var fullyrt að svona hefði aldrei gerst meðan Jóhannes í Bónus var við völd á þeim bænum. Eftir að Lífeyrissjóðir landsins eignuðust verulegan hlut í félaginu hefði það verið ávöxtunarkrafan orðið mikið hærri. Þetta er þá ekki eina tilfellið þar sem lífeyrissjóðir landsins ganga fram í grímulausu okri gagnvart eigendum sínum.

Annars skrifaði Marínó G. Njálsson ágætan pistil um þetta á Facebook vegg sinn. Hann skrifar:

„Finnur Árnason, forstjóri Haga, viðurkennir að arðsem i Haga hafi verið 35-40% meðan sambærilegar verslanir í nágrannalöndum austan og vestan hafs skila 11-13% arðsemi. Ótrúleg græðgi sem neytendur greiða fyrir í háu vöruverði, launagreiðendur í hærri launum en ella, lántakar í hærri verðbótum, húsnæðiskaupendur í hærra húsnæðisverði og atvinnulífið í hærri vöxtum og sköttum, svo fátt eitt sé tiltekið. Höfum svo í huga, að vísitala neysluverðs (VNV) inniheldur ótrúlega marga vöruliði, sem fást í búðum Haga. Þetta okur hefur því áhrif á verðbólguna og peningastefnu Seðlabanka Íslands.

En þessi arðsemi er ekki nóg, heldur vill fyrirtækið til viðbótar okra á bensíni og lyfjum. Hvað næst? Kominn er tími til að Samkeppniseftirlitið krefjist þess að fyrirtækið verði brotið upp svo hægt sé að koma á eðlilegri verðsamkeppni á neytendamarkaði.

35-40% arðsemi bendir til verðstjórnunar á fákeppnismarkaði. Það getur verið, að verðinu sé ekki stjórnað í gegn um fundi í Öskjuhlíðinni eða með tölvupóstsamskiptum, en fyrirtæki, eins og Hagar, þurfa þess ekki. Þau verðleggja óþæga keppinauta út af markaðnum með einstaka vöruflokka til að koma þeim í skilning um hver ræður. Við sáum það í „mjólkurstríðinu“ um árið. Hagar voru að vísu sektaðir fyrir það, en auðvitað var þeirri sekt bara velt út í verðlagið.

35-40% arðsemi Haga hefur áhrif út um allan dagvörumarkaðinn, vegna þess að núna dettur engum innlendum aðila í huga að reyna að vera ódýrari en Bónus. Gleymum því samt ekki, að þessi græðgi bjó til pláss fyrir Costco, þannig að fátt er svo með öllu illt.. og græðgin á til að springa framan í þann gráðuga. Ég held að kominn sé tími til, að eigendur Haga (og annarra dagvöruverslanakeðja) átti sig á því, að hógværð í arðsemi er þeim fyrir bestu.“

Veggurinn tekur undir hvert orð sem hér er ritað!

Myndin er fengin af vef Haga.

Comments

comments