Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir ritari Sjálfstæðisflokksins ritar grein í Morgunblaðið þar sem hún setur fram hugmyndir til þess að koma til móts við húsnæðisvanda unga fólksins og gera því mögulegt að kaupa eigin íbúð. Áslaug bendir á þá einföldu staðreynd að ef ungt fólk hefur getu til þess að greiða uppsett leiguverð í dag, þá hefur það greiðslugetu til þess að kaupa.
Mynd: Helgi Sig Morgunblaðið 12. júlí 2016

Mynd: Helgi Sig
Morgunblaðið 12. júlí 2016

Áslaug er ekki par hrifin af tillögum Eyglóar húsnæðismálaráðherra hún skifar:

„Daglega er okkur sagt hvernig við eigum að haga okkur og daglega rekumst við á hindranir sem stjórnmálamenn hafa komið fyrir og takmarka valfrelsi. Afskipti hins opinbera af húsnæðismarkaði er gott dæmi um slíkar hindranir. Með afskiptum sínum kemur hið opinbera í veg fyrir að einstaklingar hafi nokkurt valfrelsi í húsnæðismálum. Þannig er grafið undan möguleikum okkar á að verða fjárhagslega sjálfstæð. Með nýju húsnæðisbótakerfi, sem miðar að því að gera sem flesta að leigjendum með umsvifamiklum bótagreiðslum, er verið með neikvæðum fjárhagslegum hvötum að takmarka þetta valfrelsi enn frekar.

Tryggjum valfrelsi

Einstaklingar eru ólíkir og hafa mismunandi þarfir. Mikilvægt er að einstaklingar hafi val um það hvernig þeir kjósa að haga sinni búsetu, hvort sem þeir vilja leigja eða kaupa húsnæði.Það er hlutverk stjórnmálamanna að ryðja hindrunum úr vegi einstaklinga, ekki að leggja stein í götu þeirra líkt og gert er með umfangsmiklu og flóknu bótakerfi, kostnaðarsömum byggingareglugerðum, lögum um greiðslumat og óhóflegri gjaldtöku.“

Hér bendir Áslaug Arna réttilega á þá staðreynd að tilraunir ráðamanna til þess að leysa þennan hnút hafa í raun gengið í öfuga átt. Viðskiptaráð íslands hefur einnig bent á þetta og Veggurinn fjallaði um það á sínum tíma. Í um­sögn­ Viðskiptaráðs kem­ur fram að breyt­ing­arn­ar kunni þannig að skerða hag þeirra sem eru kaup­end­ur að íbúðum eða leigja á al­menn­um markaði utan fé­lags­lega kerf­is­ins.

Áslaug Arna bendir á hið augljósa að hér er hið opinbera að þvælast fyrir með flóknu og kostnaðarsömu regluverki. Áslaug Arna skrifar

„Hugmyndaauðgi hins opinbera í gjaldtöku er óendanleg og birtist m.a. í umsýslukostnaði, fokheldisvottorðum, gatnagerðargjöldum og þannig mætti áfram telja.Flókin lög, reglugerðir og ýmiskonar gjöld leiða til þess að íbúðir eru mun dýrari en þær gætu verið. Flóknar byggingarreglugerðir gera það að verkum að útilokað er að byggja hagkvæmar íbúðir sem uppfylla þarfir ungs fólks.

Byggingaverktakar og verkfræðingar halda því fram að með nýrri byggingareglugerð og aukinni hófsemd í gjaldtöku sé hægt að lækka byggingakostnað um 15-20%. Það eru fjórar og hálf til sex milljónir króna miðað við 30 milljóna króna íbúð. Því má fagna að byrjað er að einfalda reglugerðina, en betur má ef duga skal.

Hið opinbera, bæði ríki og sveitarfélög, býr til vandamál. Í stað þess að ráðast að rótum vandans er einungis settur plástur á sárið með tilheyrandi kostnaði hins opinbera, sem sóttur er í vasa skattgreiðenda. Þannig má sem dæmi nefna að hið opinbera hefur varið hátt í 300 milljörðum í húsnæðismál á síðustu 15 árum. Samt sem áður hefur aldrei verið jafn erfitt fyrir ungt fólk að eignast sína eigin íbúð.

Eitt stærsta hagsmunamál almennings, og ekki síst ungs fólk, er að stjórnmálamenn taki sig saman í andlitinu og tryggi að hægt sé að byggja hagkvæmt á Íslandi. Til þess þarf lítið annað en vilja til að breyta regluverkinu og draga úr álögum.“

Áslaug bendir einnig að þá möguleika sem felast í því að nýta lífeyrissparnað til húsnæðiskaupa og svo boðar hún að á næstu dögum muni hún birta myndbönd um þetta málefni.

 

Comments

comments