Sigmundur Davíð Gunnlaugsson hefur boðað að ný og endurbætt byggðastefna Miðflokksins kallist „Ísland allt“ Ingi Freyr Vilhjálmsson blaðamaður finnur þessu allt til foráttu og bendir á að neðarlega á forsíðu blaðs Þjóðernissinna sem gefið var út 1936 birtast orðin „Íslandi allt“. Hvergi kemur fram að þetta séu einhver einkunnarorð þjóðernisflokksins en Ingi Freyr telur sig umkomin þess að ákvarða að svo sé.  Þetta slagorð var á forðsíðu DV árið 2009 athugasemdarlaust.

Einkunnarorðin „Íslandi allt“ hafa fylgt framfarasögu landsins í áratugi. Þessi orð hafa verið einkunnarorð Ungmennafélags Akureyrar og síða Ungmennafélags Íslands síðan Jóhannes glímukappi fór fyrir hönd þjóðarinnar og Ungmennafélagsins á Ólympíuleika í London árið 1908.

Sú hugmynd að Ísland tæki þátt í Ólympíuleikunum í Lundúnum mun hafa komið fram á félagsfundi Ungmennafélags Akureyrar snemma árs 1907. Formaður félagsins, Jóhannes Jósefsson, var um þær mundir einn kunnast glímukappi landsins.

Þátttaka Íslands var vandkvæðum háð, enda landið ekki sjálfstætt og hafði því ekki eigin Ólympíunefnd. Fyrir milligöngu Einars Benediktssonar skálds og athafnamanns fékkst hins vegar grænt ljós frá skipuleggjendum leikanna þess efnis að Ísland sendi hóp manna til að sýna íslenska glímu. Sjálfur bjóst Jóhannes við að keppa í grísk-rómverskri glímu.

Úr varð að Íslendingarnir fengu að ganga inn á völlinn undir eigin merkjum, en Jóhannes þurfti að keppa fyrir hönd danska liðsins. Þannig hefur slagorðið „Íslandi allt“ verið órjúfanlegur hluti af sjálfstæðisbaráttu þjóðarinnar í ríflega 100 ár.

Það verða því að teljast smásálir sem ekki skilja merkingu þessara orða. Eða eins og í tilfelli Inga Freys og Stundarinnar er varla hægt að kenna um vanþekkingu heldur frekar einbeittum vilja til þess að endurskapa söguna með þeim hætti sem hentar pólitískum tilgangi.

Ekki er líklegt að þjóðin falli fyrir slíkri sögufölsun. Þetta slagorð hefur fylgt jákvæðri vitundarvakningu þjóðarinnar.

Comments

comments