LandverndFormaður Landverndar, Snorri Baldursson, skrifar grein í Fréttablaðið í morgun þar sem hann færir rök fyrir þeirri kæru sem samtökin hafa sett fram gegn Norðuráli og byggð er á þeirra eigin túlkun á lögum 57/2005 um eftirlit með viðskiptaháttum og markaðssetningu. Landvernd heldur því m.a. fram að í auglýsingunum séu ófullnægjandi eða beinlínis rangar upplýsingar. Hér er tekist á um grundvallaratriði er snerta íslenskt atvinnulíf á öllum sviðum og þau eru ekki sértæk fyrir ál/málmvinnslu eins og Snorri lætur í veðri vaka.

Snorri segir:

„Auglýsingar Norðuráls hafa reynt að byggja upp hreinleikaímynd og þá tilfinningu að ál sé á einhvern hátt norrænn eða íslenskur málmur. Þetta er auðvitað blekking.“

aluminum-foil2Ekki er nokkur vafi á því að það ál sem framleitt er á Íslandi er íslenskt, þrátt fyrir þá staðreynd að hráefni til framleiðslunnar komi erlendis frá. Gúrkur sem framleiddar eru á íslandi eru íslenskar þrátt fyrir að uppruni þeirra sé erlendur. Sama gildir um húsgögn sem smíðuð eru hérlendis úr erlendu timbri.

Í málflutningi Landverndar kemur einnig fram sú skoðun að íslensk orka sé ekki græn. Snorri spyr í grein sinni.

„En er hægt að fullyrða að orkuframleiðsla, sem m.a. kaf- færir gróðurvinjar á hálendinu, ofnýtir háhitasvæði og spillir landslagi og víðernum, sé græn?“

Svarið er einfalt og það er JÁ. Íslendingar búa við þá gæfu að geta nýtt gæði landsins til þess að framleiða umhverfisvæna orku. Þetta er staðreynd sem er viðurkennd um allan heim og almenn sátt ríkir um. Þessi sérstaða okkar getur veitt íslenskum fyrirtækjum samkeppnislegt forskot á alþjóðlegum markaði, kjósi þau að nýta hana.  

Með þessu útspili sínu er Landvernd að ráðast harkalega á íslenskt atvinnulíf og tækifæri þess til að skapa sér markaðslega sérstöðu í krafti íslensks hugvits og íslenskrar orku.

Spyrja verður hvort félagasamtökin Landvernd séu á réttri leið þegar málflutningur þeirra er farinn að hljóma í takt við skoðanir róttæklinga sem ganga beint gegn hagsmunum íslensks atvinnulífs og þar með velsæld þjóðarinnar. Einnig er sú spurning áleitin hvort Landvernd sé ekki komið út fyrir hlutverk sitt með því að hafa sérstakar skoðanir á auglýsingum atvinnulífsins. A.m.k. er tengingin við vernd landsins ekki auðséð í því samhengi.

Comments

comments