Það er verið að sóa hæfileikum og loka á reynslu þeirra sem eldri eru. Þetta eru ekki ný sannindi heldur gömul. Þekkt er í sögunni, að deilur og mál sem þarfnast úrlausnar settar í umræðu og ákvörðunarferli hjá öldungaráðum þar sem reynsla þeirra sem eldri eru er nýtt og virkjuð. Hér á landi eru þeir sem komnir eru af léttasta skeiðinu settir til hliðar og síðan er tryggt í gegnum samtryggingarkerfið að virkni fólks á vinnumarkaði verði engin eða mjög takmörkuð eftir 67 árin. Þetta er ljótur blettur á þjóðfélagsgerðinni okkar og ætti að vera eitt af þeim málum sem ný ríkisstjórn setur á oddinn.

Það er staðreynd að fólk sem eru komið er yfir 50 ára aldur á erfitt uppdráttar í atvinnuleit. Sérstaklega í þegar sótt er um stöður stjórnenda og sérfræðinga. Staða karla virðist vera erfiðari ef eitthvað er. Svo virðist sem vinnumarkaðurinn og þau ráðningarfyrirtæki sem eru að aðstoða við ráðningar, miskunnarlaust flokki fólk yfir fimmtugu út úr þeim hópum sem halda áfram í umsóknarferli. Veggurinn hefur verið í sambandi við bæði karla og konur á þessum aldri sem eru í atvinnuleit og er reynsla þeirra allra með mjög fáum undantekningum er sú sama. Fólkið þrátt fyrir góða menntun og umtalsverða reynslu kemst ekki einu sinni í viðtöl á ráðningarstofunum. Einn viðmælenda orðaði þetta þannig að í hans tilfelli væri hlutfallið einn á móti tuttugu. Af 20 umsóknum náði hann í gegnum tengslanet sitt að komast í viðtal.

Björn Ingi Hrafnsson fjölmiðlamógúll og útgefandi skrifaði um þetta færslu á Facebook vegg sinn. Hann skrifaði:

„Við Íslendingar komum alls ekki nægilega vel fram við þá sem eldri eru og reynslumeiri. Víða erlendis, t.d. í Bandaríkjunum, er reynslumikið fólk á sjötugs- og áttræðisaldri eftirsótt á vinnumarkaði, ekki síst í stjórnunarstöður. Hér dæmum við fólk með fulla starfsorku úr leik þegar það verður sjötugt, jafnvel yngra. Og til að bíta höfuðið af skömminni lækkaði frítekjumark eldri borgara um áramót niður í 25 þúsund á mánuði. Það þýðir að eldri borgarar mega nánast ekki hafa neinar aukatekjur þótt heilsan sé í góðu lagi. Þetta er hneyksli og þjóðarskömm. Við þurfum á öllu okkar besta fólki að halda — óháð aldri.“

Veggurinn tekur fullum hálsi undir þá skoðun Björns Inga að sannarlega þurfum við á öllu okkar fólki að halda. Því skýtur skökku við að atvinnumiðlanir skuli dæma fólk úr leik eftir fimmtugt. Þar er gríðarlega sóun í gangi.

Comments

comments