,,Til þess að ráðast í þessar framkvæmdir verðum við að hugsa og framkvæma eftir nýjum leiðum því það er alveg ljóst að við fjármögnum þetta ekki með hefðbundnu ríkisframlagi. Ég mun fela starfshópi að móta þessar tillögur. Með nýrri sýn og nýrri nálgun í forgangsröðun framkvæmda á helstu stofnæðum út frá Reykjavík, skapast tækifæri til nýrrar forgangsröðunar verkefna á landsbyggðinni sem samgönguáætlun tekur til,“

Þetta sagði Jón Gunnarsson samgönguráðherra á morgunfundi um vega- og samgöngumál sem samtök fésýslsufyrirtækja héldu í síðustu viku.

Samkvæmt upplýsingum frá FÍB má gera má ráð fyrir því að á þessu ári innheimti ríkissjóður um 70 milljarða króna af bifreiðum og umferð. Væri helmingnum af því skattfé varið til viðhalds og nýframkvæmda í þjóðvegakerfinu, væri ekki ástæða til að kvarta. Hugmyndir sumra pólitíkusa ganga út frá því að einkavæða valda lykilkafla þjóðvegakerfisins og innheimta vegatolla fyrir akstur um þá í ofanálag við fyrrnefnda 70 milljarða. Út frá umferðartölum og markaðsforsendum eru þessir vegir nær eingöngu á suðvesturhorni landsins.  Hlutfallslegar tekjur ríkisins af bílum og umferð eru mestar á suðvesturhorninu og þar telur ráðherra í ríkisstjórninni sem er þingmaður fyrir Suðvesturkjördæmi eðlilegt að leggja á viðbótarálögur.

Þessar hugmyndir ganga í berhögg við vilja mikils meirihluta þjóðarinnar. Það að taka nánast af handahófi einn og einn kafla af samhangandi og samstæðu þjóðvegakerfi á Íslandi út fyrir sviga og gera gjaldskyldan sérstaklega, er brot á grundvallarhugmyndinni um þjóðvegi ríkisins – samfélagsins. Hugmyndin um að sérstakt eignarfélag, hvaða nafni sem nefnist, ehf, ohf, sem byggi, eigi og reki með gjaldtöku valda lykilkafla í þjóðvegakerfi Íslands er ósættanleg mótsögn við grundvallarhugmyndina um samhangandi þjóðvegakerfi ríkisins í þágu allra byggða, í þágu allra landsmanna jafnt. Hvalfjarðargöng voru tekin út fyrir sviga á sínum tíma, nýframkvæmd og samgöngubót en ökumenn áttu eftir sem áður val um að aka veginn um Hvalfjörð.  Það að taka Suðurlandsveg, Vesturlandsveg og Reykjanesbraut undir umsjón nýrra samgöngufélaga er eignaupptaka frá borgurunum sem hafa borgað fyrir uppbyggingu þessara vega með bílasköttum sínum í áratugi.  Ef ætlunin er að breyta þessu, þá þarf að spyrja þjóðina fyrst. Það hefur ekki verið gert.

 

Nýr starfshópur Jóns Gunnarssonar ráðherra samgöngu- og sveitarstjórnarmála um nýjar leiðir í fjármögnun samgöngumannvirkja er væntanlega að fara af stað með vinnu sína.  Ekki hefur verið óskað aðkomu FÍB að því starfi.  FÍB eru frjáls hagsmunasamtök vegfarenda sem um 16 þúsund fjölskyldur eiga aðild að.  FÍB býður fram krafta sína og vonast eftir því að til félagsins verið leitað varðandi hugmyndavinnu um leiðir til að fjármagna vegaframkvæmdir.

Comments

comments