„Það var löngu orðið tímabært að aflétta höftum af almenningi og lækka svo vexti. Með því sannast endanlega að aðgerðir okkar til að endurreisa efnahagslíf landsins og aflétta höftum heppnuðust fullkomlega. Aðgerðir sem sagðar voru „einstakar í fjármálasögu heimsins“.

En í stað þess að klára planið eins og lagt var upp með og gera þetta að sigurdegi virðist stjórnvöld ætla að nota tækifærið til að leysa vogunarsjóðina út með gjöfum, alla á einu bretti.“

Þetta ritaði Sigmundur Davíð Gunnlaugsson á Facebook vegg sinn í kjölfar þess að ríkisstjórn Bjarna Ben tilkynnti um losun hafta á morgun þriðjudag. Sigmundur virðist ekki par hrifin af samkomulagi Seðlabankans við aflandskrónueigendur um kaup á krónum. Seðla­bank­inn bauð þeim að kaupa krónur þeirra á 137,5 krónur á hverja evru, en í útboð­i sem Seðla­bank­inn hélt í júní í fyrra hljóðaði boðið upp á 190 krónur.

Eins og alþjóð veit hafa þeir hrægammar sem verið hafa hér fastir í íslenskum höftum ítrekað haft sig í frammi og blandað sér með beinum hætti inn í íslenska umræðu og stjórnmál. Sumt hefur verið augljóst og beinlínis áberandi en svo er líka þekkt að bæði auglýsingastofur, miðlar og PR fyrirtæki hafa unnið markvisst fyrir þessa sjóði. Það sem er merkilegt í því samhengi er að hagsmunir okkar sem þjóðar og hagsmunir þessara hrægammasjóða fara ekki saman. Þannig hefur fjöldi íslendinga beinlínis haft af því atvinnu að ganga gegn hagsmunum þjóðarinnar.

Sigmundur heldur áfram og ritar:

„Óttinn reyndist réttur. Það stendur til að verðlauna hrægammana sem vildu ekki spila með (í útboðinu í fyrra) og ákváðu þess í stað að beita áróðri og undirróðri til að hafa áhrif á íslensk stjórnmál.

Stjórnvöld voru á sínum tíma búin að gera mönnum ljóst að þeir sem tækju ekki þátt sætu eftir og gætu setið fastir á lágum eða engum vöxtum í mörg ár. Fyrir vikið voru þeir sem trúðu því að stjórnvöldum væri alvara reiðubúnir til að borga 190 krónur fyrir hverja evru þegar skráð gengi var um 139 krónur.

Þeir sem höfðu séð merki þess að hægt væri að brjóta stjórnvöld a bak aftur tóku ekki þátt og nú fá þeir að kaupa evruna á ca. 137 krónur.

Sá sem hefði fengið 100 milljón evrur með því að taka þátt í útboðinu fær nú rúmlega 138 milljón evrur. Það er hægt að kaupa margar auglýsingar og ráða marga PR-menn fyrir slíkan mun.

Planið gekk upp hjá vogunarsjóðunum. Þeir fengu kosningar, nýja ríkisstjórn, nýja stefnu og nýtt verð. „Special price for you my friend“.“

Fréttaumræða gærdagsins og hefur að mestu verið þannig að menn trúa því að aðgerðin sé jákvæð en þó eru margir sem furða sig á genginu sem þessum hrægömmum er heimilt að losa sig út á. Eiga þeir sem voru þvingaðir í útboðið undir þeim formerkjum að þeir yrðu frystir inni árum saman á lágum eða engum vöxtum mögulega endurkröfurétt á ríkið þar sem í ljós hefur komið að hótanir ríkisins voru marklausar? Ljóst er að þeir sem tóku þátt í útboðum Seðlabankans hafa tapað umtalsverðu fé vegna innantómra hótanna íslenskra stjórnvalda og Seðlabanka Íslands.

Það skildi aldrei vera að þessir aðilar færu að beita sér í umræðunni á Íslandi til þess að svara fyrir það hvernig þeir voru blekktir.

Ein af þeim auglýsingum sem hrægammasjóðirnir birtu

Comments

comments