Mér þætti ekki ólíklegt, að Seðlabankinn gæti horft upp á stefnu fyrir að ganga á bak útboðsskilmálum frá í fyrra. Þeir sem tóku tilboði SÍ völdu þá leið, þar sem þeim var annars hótað áralangri bið eftir losun peninganna. Nú kemur í ljós að biðin var örfáir mánuðir. Kæmi mér ekki á óvart, að bankinn hafi með því skapað sér skaðabótaskyldu gagnvart þeim sem héldu að seðlabankastjóri hefði bein í nefinu og mynd halda öðrum krónueigendum a.m.k. í 10 ár föstum með fé sitt á Íslandi.

Störukeppninni er hins vegar lokið og Seðlabanki Íslands blikkaði augunum fyrst. Ég hef reynt mitt besta í nokkur ár, að skilja peningamálastjórnun bankans, en ekki tekist það. Vaxtastefnan er ekki með neina ákveðna línu, nema að halda vöxtunum háum. Skýringarnar hafa verið á reiki og breyst á milli funda Peningastefnunefndar, viðtala við bankastjórann, að ég tali nú ekki um aðalhagfræðing bankans, sem telur það heilaga skyldu bankans að hafa af öllum hagstæða þróun, nema náttúrulega vogunarsjóðunum.

En það eru ekki bara vogunarsjóðirnir sem fara hlæjandi út í banka í fyrramálið. Það gera líka íslenskir efnamenn, sem geta núna fært háar upphæðir á milli landa á ákaflega hagstæðu gengi. Áhrifin verða einhver veiking krónunnar, og mátti blessunin alveg við því. Hún er eins og lyftingamaður á sterum, sem fær bara að pósa sig fyrir framan spegilinn, því hann er hvergi gjaldgengur í keppni. Þannig er það með krónuna. Hún á enga vini sem stendur. Fjármálaheimurinn er hins vegar stórfurðulegt fyrirbrigði og því getum við alveg eins átt von á því, að á þriðjudag verði hún skráð á gjaldeyrismarkaði út um allan heim.

Comments

comments