Raforkumarkaðurinn á Íslandi sem snýr að heimilum og almennum fyrirtækjum sem ekki teljast til stórnotenda nýtir u.þ.b. 20% af þeirri orku sem framleidd er. Frá upphafi rafvæðingar á Íslandi hafa vinnslufyrirtækin verðlagt orku sína til þessa markaðshluta með gjaldskrám þar sem verðið og öryggi afhendingar er byggt á einhliða ákvörðun orkusalans. Þetta fyrirkomulag er enn viðhaft.

Á kynningarfundi sem Landsvirkjun hélt í kjölfar skýrslu um raforkumarkaðinn frá dönskum hagfræðingum var því beint að fundargestum að það þyrfti að hækka verð til almennra nota til þess að auka áhuga orkuframleiðenda á því að byggja nýjar virkjanir. Ekki verður annað séð en hér sé verið að snúa hlutunum á hvolf. Samningar við nýja stórnotendur þurfa að mynda hvatann til nýrra virkjanna að mestu leiti. Landsmenn eiga síðan að njóta ávaxtanna af þessháttar fyrirkomulagi með sérstaklega hagkvæmu orkuverði líkt og verið hefur. Slíkt eykur samkeppnishæfi íslenskrar framleiðslu og styður best við fjölgun starfa hérlendis til lengri tíma litið.

Hvernig þessu er stillt upp er pólitísk ákvörðun sem stjórnmálaforingjar hér á landi verða að fara að taka skýra afstöðu til. Sú rödd sem kallar eftir eigendastefnu Landsvirkjunar verður sífellt háværari. Einn af þeim sem taka undir þetta sjónarmið er Vilhjálmur Birgisson verkalýðsleiðtogi á Akranesi en hann ritaði nýlega grein um þetta og birti á bloggi sínu. Grein Vilhjálms er í heilu lagi hér að neðan.

„Er ekki komin tími til að stjórnvöld marki eigendastefnu fyrir Landsvirkjun? Í það minnsta væri fróðlegt að vita hversu miklum fjármumum Landsvirkjun hefur eytt í að kanna möguleika á því að leggja raforkusæstreng til Skotlands.

Er ekki algjört lágmark að stjórnvöld marki þessa eigendastefnu? Því mér er það algjörlega til efs að vilji sé hjá almenningi og stjórnvöldum að selja okkar orku erlendis sem mun leiða til hækkunar á raforku til heimila og fyrirtækja.

Það er mitt mat að afar brýnt sé að marka þessa eigendastefnu, því er það t.d. eðlilegt að síldarbræðslurnar sem sumar hverjar höfðu ráðist í fjárfrekar breytingar á sínum búnaði til að geta notað raforku sem orkugafa, sjái sér nú ekki fært að keyra verksmiðjunnar á raforku af þeirri ástæðu að orkuverð Landsvirkjunnar er svo hátt að það er hagkvæmara að keyra þær áfram með mengandi orkugjafa sem er olía.

Að sjálfsögðu viljum við öll að notuð sé vistvæn orka til að lágmarka umhverfismengun og það getur alls ekki verið eðlilegt að síldarbræðslunnar sjái sér ekki fært að nota vistvæna orkugjafa því verðlaging Landsvirkjunar sé ekki samkeppnishæf við mengandi orkugjafa eins og olíu.

Það getur varla verið einkamál forsvarsmanna Landsvirkjunnar hvort hér verður lagður sæstrengur til Evrópu eða hvernig verðlagning á raforku til heimila og fyrirtækja er háttað. Því skora ég á Alþingi að móta sér tafarlaust eigendastefnu fyrir Landsvirkjun þar sem hagsmunir heimila, fyrirtækja og atvinnuöryggis verði höfð að leiðarljósi!“

Comments

comments