Búrfellslundur

Búrfellslundur mynd Landsvirkjun.

Á Íslandi í dag er Landsvirkjun með einokunarstöðu í framleiðslu á raforku með vatnsafli og þess vegna hefur myndast óeðlileg fákeppnisstaða.
Fyrirtækið er að undirbúa byggingu á vindrafstöðvum í 200 MW Búrfellslundi og 100 MW Blöndulundi. Að tillögu nefndar um Rammaáætlun er Búrfellslundur í biðflokki en Blöndulundur í nýtingarflokki.
Þrátt fyrir eftirgrennslan hef ég enn ekki rekist á kostnaðaráætlanir frá Landsvirkjun fyrir Búrfellslund og Blöndulund. Fulltrúar fyrirtækisins ræða hins vegar í almennum vendingum um að „við verðum að hafa í huga að þetta eru áhugaverðir möguleikar í krefjandi umhverfi“.

Framleiðsla vindrafstöðva er óstöðug og minnkar með lækkandi vindstyrk.
Við lækkandi framleiðslu hjá vindrafstöðvum má gera ráð fyrir að Landsvirkjun sinni fyrst af öllu sínum eigin vindrafstöðvum. Þar á eftir kæmu svo vindrafstöðvar annarra, alla vega á meðan miðlað vatn og framleiðslugeta hjá vatnsaflsvirkjunum er fyrir hendi.
Í kostnaðaráætlunum fyrir eigin vindrafstöðvar Landsvirkjunar ætti að gera ráð fyrir kostnaði vegna þjónustu vatnsaflsvirkjana við að fylla upp í framleiðslulægðir vindrafstöðva.
Erfitt að sjá fyrir að vatnsaflsvirkjanir Landsvirkjunar muni í framtíðinni og án sérstakrar greiðslu taka að sér að „bakka upp“ framleiðslu hjá öðrum framleiðendum vindorku, t.d. í þéttbýlisstöðum og hjá fyrirtækjum og bændum.
Það væri auðvelt fyrir Landsvirkjun að ýta öðrum vindorkuframleiðendum til hliðar með því að hækka verðlagningu á miðlaðri orku, en það væri óeðlilegt ef Landsvirkjun þjónaði á sama tíma sjálfri sér fyrir ekki neitt.
Væri ekki nærtækasta lausnin að koma vindlundum sem allra fyrst í hendur sérstaks orkufyrirtækis, sem ekki væri í eigu Landsvirkjunar?

Skúli Jóhannsson
Verkfræðingur

Comments

comments