Elías Bjarni Elíasson verkfræðingur skrifar grein í Morgunblaðið í morgun þar sem hann varpar ljósi á aðgerðir núverandi borgarstjórnarmeirihluta varðandi þéttingu byggðar og áform um Borgarlínu í kjölfarið. Elías skrifar:

„Núverandi vinstri meirihluti hefur því gengið með oddi og egg í að þétta byggð og fyrir því gæluverkefni verður allt að víkja. Sundabraut skal hindra, því hún gæti greitt fyrir umferð inn í borgina. Leggja skal niður flugvöllinn í Vatnsmýri, byggja þar upp hverfi og auka umferð þangað þar Miklabrautin verður einn umferðahnútur. Þá sjá allir að Borgarlína verður að koma. Síðan verður byggðin meðfram línunni þétt þar til aðeins er fært fyrir rafskutlur. Þannig skal einkabílnum útrýmt svo Borgarlínan fær smátt og smátt meiri viðskipti og verður arðbær.“

Þetta er eflaust rétt hjá Elíasi því allir sem nenna að leggja það á sig að kynna sér fyrirætlanir með borgarlínu sjá strax það grímulausa ofbeldi sem borgin og nágranna sveitarfélögin ætla að beita gagnvart íbúum sínum. Til stendur að þrengja svo að notkun einkabílsins að Borgarlínan verði raunverulegur valkostur. Það á að skerða lífsgæði 85% kjósenda til þess að þjónka þeim 15 prósentum sem mögulega verða farnir að nota Borgarlínu árið 2040. En aftur að grein Elíasar. Elías bendir á þá þróun sem þegar er hafin að bæði fólk og fyrirtæki eru á flótta úr borginni. Hann skrifar:

„Þétting borgarinnar er þegar hafin. Í því skyni er framboð lóða takmarkað sem mest við dýrari lóðir í gömlu hverfunum og úr verður lóðaskortur. Þar sem borgin hefur markaðsráðandi stöðu á lóðamarkaði getur hún spennt upp lóðaverð svo hinar dýru þéttingarlóðir seljast, en þetta heitir markaðsmisnotkun í annars konar viðskiptum. Markaðurinn svarar auðvitað á sinn hátt með því að þeim fækkar sem byggja vilja sín hús og borga sín gjöld í Reykjavík, þannig að útsvarstekjur borgarinnar lækka. Nágrannasveitarfélögum finnst auðvitað gott að fá nýja, góða útsvarsgreiðendur og taka þeim opnum örmum.“

Elías heldur áfram og tekur fyrir þá merkilegu staðreynd að engir arðsemisútreikningar hafa verið lagðir fram til grundvallar ákvörðun um Borgarlínu. Hann skrifar:

„Borgarstjóri er kjörinn af íbúum borgarinnar til að þjóna þeim og gæta þeirra hagsmuna. Því ber honum að leggja fram fyrir íbúana niðurstöður arðsemisreikninga sem túlka þeirra hagsmuni. Þar er innviðagjald og hækkun lóðagjalds talin til kostnaðar. Að leggja einungis hina þrengri greiningu fram, eins og borgarstjóri virðist gera er blekking og trúnaðarbrot gagnvart kjósendum.“

Elías bendir á líkt og Frosti Sigurjónsson hefur bent á áður, að sú aðferðafræði að safna fólki saman á einn stað til þess að flytja það frá A til B er gamaldags úreld hugsun. Hann lokar pistli sínum með þessum skrifum.

„Þó þeir séu til, sem dásama líf án bíls, þá stefna lífshættir okkar í aðra átt. Við sjáum hilla undir byggð án umferðatafa, mengunarfría sjálfkeyrandi bíla og netþjónustu í fólksflutningum með mínar dyr sem mína biðstöð, í stað sérbyggðra biðstöðva með línum á milli. Þess sjást þegar merki að þrenging byggðar hvetur efnameiri borgara til búsetu annarstaðar og fyrirtæki eru farin að flytja til rýmri svæða utan borgar. Borgarlínudraumurinn er úreltur og orðinn skaðlegur. Þetta finna borgarbúar á sér og munu tryggja, að draumar um þéttingu byggðar og Borgarlínu verði draumar liðins dags eftir næstu kosningar.“

 

Comments

comments