PBK

Páll Bragi Kristjónsson

TÝNAST SÍMANÚMER?

Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra, hefur jafnan staðið stífur á markmiðum sínum um fjármálalegan stöðugleika í ríkisbúskapnum. Þessvegna sennilega talaði hann í ávítunartóni til Forseta Íslands, daginn fyrir Þorláksmessu s.l. ár, þegar sá síðarnefndi lét í ljósi áhyggjur af bágum kjörum og skertum hlut aldraðra og öryrkja í samfélaginu.

Kjararáð hækkar nú laun háttsettra starfsmanna ríkisins úr öllu hófi og án samhengis við raunveruleikann að öðru leyti. Þetta mun óhjákvæmilega raska meginmarkmiðum ráherrans, en hann lætur bara gott heita og vitnar til laganna. Minna má því aftur á, að „Árið 1992 vildi kjararáð hækka laun æðstu ráðamanna umtalsvert en þáverandi ríkisstjórn greip til sinna ráða. Setti voru bráðabirgðalög sem skylduðu kjararáð til að veita æðstu ráðamönnum sömu hækkun og almenningur fékk – 1.7%.“

Formaður Kjararáðs var skólabróðir fjármálaráðherra í lagadeild HÍ, hann er jafnframt stjórnarformaður Landsvirkjunar og fundarstjóri á Landsfundum Sjálfstæðisflokksins.

Hafa þeir týnt símanúmerum hvors annars, eða leikur ráðherrann hugsanlega tveimur skjöldum?

Víst mun almennt launafólk í landinu bíða þess, í fyrsta lagi, hann rjúfi þögnina og, í öðru lagi, nýta sér í kjaramálum fordæmið, sem þarna er gefið.

Comments

comments