ma_20150911_000535Því hefur oft verið haldið fram að innan RÚV sé rekin pólitískur áróður fyrir alla milljarðana sem ríkið setur í þennan rekstur.

Í ársskýrslu Ríkisútvarpsins 2014 lýsir útvarpsstjóri hlutverki ríkismiðilsins meðal annars með þessum orðum: „Ríkisútvarpið á að virkja samtakamátt þjóðarinnar á stórum stundum, setja ný viðmið og skara fram úr, leiða nýsköpun og taka áhættu.“ síðar segir útvarpsstjóri „Meðal þess sem okkur þykir mikilvægt er að bæta framboð á leiknu íslensku efni og gæðaefni fyrir börn á íslensku enda verður á næstu ár- um gerð enn ríkari krafa um að Ríkisútvarpið bjóði nýjum kynslóðum Íslendinga upp á vandað íslenskt efni þegar erlent afþreyingarefni á erlendum tungumálum er á hverju strái.“ Veggurinn tekur heilshugar undir metnaðarfull áform útvarpsstjóra og tekur undir það sjónarmið að bæta þarf framboð á leiknu íslensku efni og gæðaefni fyrir börn á íslensku. Það sem boðið var uppá í nokkrum atriðum af annars metnaðarfullu og vel unnu Stundarskaupi, hátíðarþætti Stundarinnar okkar var langt frá því að uppfylla þessi markmið og kynnti undir þær raddir að RÚV sé notað í pólitískum tilgangi.

Hér er uppskrifað handrit af þeim atriðum sem um ræðir.

Episode III
Texti lesin af rödd úr fjarlægri framtíð:
Eftir fall velmegunarríkisins eru afleiðingar áralangs erfiðis og leiðinda að koma í ljós.
Uppreisnarmenn og konur hafa hreiðrað um sig í mikilvægum stofnunum grunnstoða mannlífsins og heimta það eitt að fá að lifa eðlilegu lífi fyrir sig og fjölskyldur sínar. Skjótandi í myrkrinu ferðast æðstu yfirmenn hins nýstofnaða velmegunarríkis stjórnlaust um óravíddir alheimsins á hinu endurnýjaða, ógnarstóra og misskilda flotaskipi ,,Einkavæðaranum“
Þegnar hins nýja ríkis telja niður að áramótum og vona það eitt að jafnvægi og friður ríki að nýju í sólkerfinu.
BB: Ha, ha það eru spennandi tímar framundan.
SDG: Ójá Bjarni minn kær, við erum á góðri leið með að klára þetta. Nú fljúgum við einkavæðaranum yfir landið. Atriðinu lýkur með geðveikislegum hlátri stjórnenda Einkavæðarans.
Atriði no. 2
Atriðið hefst með geðveikislegum hlátri stjórnenda Einkavæðarans.
SDG: Þá er einkavæðarinn kominn yfir Ísland.
BB: (Admiráll Icehot1): Geðveikur hlátur.
BB: Byrjum á Landsspítalanum. Þessir læknar og hjúkrunarfólk eru sívælandi, aldrei ánægð með neitt, ha, ha, ha.
SDG: Góð hugmynd, góóð hugmynd. Við höfum ekkert að gera með Landsspítala. Nú fá uppreisnarseggirnir fyrir ferðina.
Báðir: Geðveikislega illkvittinn hlátur. Landspítalinn skotinn í tætlur af dauðageislanum!
Atriði no 3.
Atriðið hefst með geðveikislegum hlátri stjórnenda Einkavæðarans.
SDG: Hvað núna?
BB: Klárum RÚV núna.
SDG: Ég fíla hvernig þú hugsar.
BB: Það er svo gaman, gaman að rústa að rústa – geðveikislegur hlátur.
RÚV skotið í tætlur af dauðageislanum!
BB: Allt í botn, siglum stjórnlaust áfram.
SDG: Stjórnlaust, já stjórnlaust.
Geðveikislegur hlátur.

Almenn sátt hefur verið um það að beina ekki áróðri og auglýsingum að börnum þar sem þroski þeirra hamlar því að þau geti greint á milli þess hvað er gaman og hvað alvara. Þessi sátt var þarna brotin alvarlega.

Þess skal getið hér að lokum að bæði dagskrárstjóri RÚV og dagskrárgerðarmennirnir sem unnu þetta efni hafa opinberlega beðist afsökunar á þessu og eru þeir menn að meiri á eftir.

Comments

comments