Gunnar Þór Heiðarsson aka Nöldrarinn

Gunnar Þór Heiðarsson
aka Nöldrarinn

Bloggarinn Gunnar Hreiðarsson aka. Nöldrarinn skrifar pistil á bloggsíðu sína sem hann kallar „Hvað er hrein orka“. Þar furðar hann sig á kæru Landverndar vegna auglýsinga Norðuráls. Pistill hans er hér að neðan í fullri lengd.

——

Landvernd hefur lagt fram kæru á Norðurál, vegna auglýsinga sem fyrirtækið hefur sent frá sér. Þessi kæra er nokkuð undarleg og erfitt að átta sig á hvað liggur að baki. Vilji til hreinna andrúmslofts í heiminum er alla vega ekki undirliggjandi hjá Landvernd.

En hvað er það sem fer fyrir brjóstið á Landvernd, í þessum auglýsingum Norðuráls?

Þau atriði sem Landvernd telur villandi eða umdeildar eru eftirfarandi: Málmur af norðurslóð, Norðurál notar umhverfisvæna orku, málminn má endurvinna nánast endalaust, það má endurvinna áldósir allt að hundrað sinnum og Álið okkar. Þá telur landvernd að setningin „sé einn grænasti málmur í heimi“ sé ósönn.

Vissulega er álið frá Íslandi málmur af norðurslóð. Þó hluti hráefnisins sé innfluttur er annað hráefni íslenskt og allt vinnuafl við framleiðsluna og þjónustu tengda henni, er íslenskt. Þetta er því óumdeilanlega íslenskur málmur og Ísland er sannarlega á norðurslóð. Þessi fullyrðing Norðuráls stenst því fullkomlega.

Næsta athugasemd Landverndar er aftur stór undarleg. Að vísu má auðvitað endalaust deila um hvað telst hrein orka, en enginn hefur þó enn getað bent á hreinni orku en vatnsaflið. Um gufuafl má hins vegar deila. En megin orkan hér á landi er framleidd með vatnsafli og Ísland talið til hreinustu orkuframleiðenda heims. Ef Landvernd telur orkuframleiðslu okkar óhreina, hljóta samtökin að miða við einhverja annarskonar orkuframleiðslu og því hljóta samtökin að benda á hana. Þá hljóta samtökin einnig getað bent á álbræðslufyrirtæki út í heimi sem nýta slíka orku og eru því umhverfisvænni en íslensk álfyrirtæki. Það er ekki hjá því komist að framleiða ál fyrir heiminn, tæknin kallar á slíkan málm og það í stór auknum mæli. Nú eru stæðstu framleiðendur á áli Kínverjar og þar í landi eru þessar bræðslur knúnar áfram með orku sem framleidd er að stæðstum hluta með kolaverum. Kannski Landvernd telji heppilegra fyrir heimsbyggðina að leggja af slíkar bræðslur hér á landi, þar sem mengun er eins lítil og hugsast getur og færa framleiðsluna alfarið til Kína. Að þannig verði framtíð jarðar best komið!

Um athugasemdir Landverndar um endurvinnslu áls get ég í sjálfu sér ekki fullyrt neitt, hef ekki næga þekkingu á því sviði. Þó veit ég að lítið mál er að endurvinna ál, en vel getur verið að það sé ekki hægt endalaust eins og Norðurál heldur fram og vel getur verið að ekki sé hægt að endurvinna áldósir hundrað sinnum, kannski bara níutíu sinnum. Því gæti athugasemd Landverndar átt við einhver rök að styðjast þar, en ansi eru þau samt veik.

Auglýsing Norðuráls er samin af Norðurál. Því tala þeir að sjálfsögðu um „álið okkar“ í téðri auglýsingu. Önnur túlkun eru hreinir og beinir útúrsnúningar af hálfu Landverndar, settar fram í þeim eina tilgangi að kasta ryki í augu fólks og afvegaleiða umræðuna.

Að lokum heldur Landvernd því fram að íslenskt ál sé ekki grænasti málmur í heimi. Þeirri fullyrðingu hlýtur að fylgja sönnun eða ábending um grænni málm. Menn kasta ekki fram slíkum fullyrðingum, allra síst í kæru, nema þeir hafi einhver haldbær rök máli sínu til stuðnings.

Það verður fróðlegt að sjá hvernig Neytendastofa tekur á þessari ákæru, hver niðurstaðan verður.

Sorglegra er þó að sjá samtök eins og Landvernd leggjast svona í skítinn, þegar önnur þarfari verkefni kalla á. Trúverðugleiki samtakanna bíður stórann hnekk við svona skítkasti og hver græðir á slíku?

Væri ekki nær fyrir Landvernd að takast á við alvöru verkefni, nær að efla trú landsmanna á samtökunum? Hvers vegna berjast ekki þessi samtök gegn sæstrengs áformum, þar sem náttúra landsins mun verða að veði?

Comments

comments