Vilhjálmur Birgisson verkalýðsleiðtogi á Akranesi sem situr í samninganefnd sjómanna er ekki glaður með framgöngu sjávarútvegsráðherra. Ráðherrann var í þættinum Morgunvaktinni á Rás 1 í morgun. Þar sagði hún meðal annars:

 „Finnst þér að ég eigi að koma með sértækar aðgerðir, og eins og sumir eru að leggja til, að niðurgreiða laun fyrir útgerðarmenn? Ég er því mótfallin,“ sagði Þorgerður.

Hún sagði að þeir sem hafa einkarétt á auðlind þjóðarinnar verði að axla þá ábyrgð og ná samningum.

Vilhjálmi var ekki skemmt yfir þessum ummælum ráðherrans. Hann ritaði á Facebook vegg sinn:

„Jæja, þá liggur það fyrir að getur orðið af nýjum kjarasamningi við Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi þótt þau myndu fallast á okkar tilboð því það var háð þeim ófrávíkjanlegu skilyrðum að sjómenn myndu njóta dagpeninga eins og annað launafólk í þessu landi.

Nú hefur sjávarútvegsráðherra talað enn og aftur skýrt um að íslenskir sjómenn fái ekki að sitja við sama borð og annað launafólk í þessu landi og með þessum ummælum deyr það tilboð drottni sínum sem lagt var fram í gær til Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi!

Málið er að sjómenn eru alls ekki að biðja um neina ölmusu heldur einungis það að fá að sitja við sama borð og allt launafólk í þessu landi sem þarf starfs síns vegna að starfa víðsfjarri sínu heimili! Búið spil.is!“

Comments

comments