Vilhjálmur Birgisson verkalýðsleiðtogi á Akranesi segir í blog færslu sinni að ríkisstjórnin krjúpi við hreiður hrægamma. Vilhjálmur furðar sig á þeim afslætti sem þessum aðilum hefur verið gefin og skrifar:

„Já, það verður að segjast alveg eins og er að það er eilítið undarlegt að hrægömmunum hafi verið gefinn afsláttur sem nemur allt að 54 milljörðum sem er nánast sama upphæð og kostar að reka Landspítalann á einu ári!“

Vilhjálmur telur að gengi krónunnar hafi þegar fallið um 3% frá tíðindum gærdagsins og muni það líkast til falla enn frekar. Hann spyr:

„Er það virkilega þannig að ef gengið fellur töluvert vegna losunar hafta að almenningur og heimili verða enn og aftur látin standa berskjölduð og óvarin eftir? Verður það kannski þannig að ef verðbólgan eykst um 1% til 2% vegna þess að hrægömmum er gefinn afsláttur upp á 54 milljarða að verðtryggðar skuldir heimilanna geti hækkað um t.d. um 20 milljarða til 40 milljarða?

Er málið kannski þannig að hér er um dulda gengisfellingu að ræða á kostnað almennings? Þessir snillingar sem standa að þessu hljóta síðan að kenna bara launahækkunum almennings um ef verðbólgan fer af stað.“

Vilhjálmur talar hér með svipuðum hætti og fleiri hafa gert í dag sem telja að ríkisstjórnin sé að dulbúa gengisfellingu í afnámum hafta. Meðal þeirra sem haldið hafa þessu fram eru Björn Ingi Hrafnsson fjölmiðlamógúll sem ritaði færslu fyrr í dag og Veggurinn hefur skrifað um. Vilhjálmur er ósáttur að ríkisstjórnin hafi ekki gert ráðstafanir til þess að verja heimilin í landinu ef gengið fellur duglega. Hann ritar:

„Alla vega finnst mér undarlegt að engar ráðstafanir séu gerðar til að verja heimilin gagnvart þeirri gengisáhættu sem fólgin er í losun haftanna. Það væri t.d. hægt að gera með því að festa verðtryggðar skuldbindingar heimilanna við neðri vikmörk Seðlabankans sem er 2,5%. Nei, það var ekkert mál að krjúpa við hreiður hrægammanna og rétta þeim allt að 54 milljarða og skilja síðan almenning eftir óvarinn og berskjaldaðan gagnvart þessari gengisáhættu sem sannarlega er til staðar!“

 

Comments

comments