Ég er ekki í neinum vafa um að nú verður að skoða þetta rugl sem er í kringum lífeyrissjóðina en það kostar um eða yfir 10 milljarða að reka lífeyriskerfið á ári.

Hér er til dæmis verið að greiða framkvæmdastjóra Framtakssjóðs Íslands 20 milljóna mætingarbónus fyrir það eitt að hafa náð að vinna fyrir sjóðinn í 3 ár! Í þessu samhengi er mikilvægt að átta sig á því að það eru íslensku lífeyrissjóðirnir sem eiga uppundir 70% í Framtakssjóði Íslands.

Það kemur líka fram í þessari frétt að fjórir starfa hjá Famtakssjóði og námu laun þeirra 135 milljónum eða tæpum 3 milljónum á mann á mánuði.

Það er grátbroslegt að sjá hræsnina í sumum fulltrúum Samtaka atvinnulífsins og verkalýðshreyfingarinnar sem tala um mikilvægi þess að koma hér á svokölluðu Salek samkomulagi sem gengur út á að beisla launahækkanir til að koma á stöðugleika.

Eins og allir vita eru það fulltrúar frá Samtökum atvinnulífsins og verkalýðshreyfingarinnar sem stjórna lífeyrissjóðunum.

Það er líka grátbroslegt að þessir aðilar standa síðan á öllum torgum og öskra það þarf að stöðva „höfrungarhlaupið“, en það á bara að gilda um almennt verkafólk og iðnaðarmenn.

Spurning að hafa aðalkröfu á Samtök atvinnulífsins í næstu samningum alvöru mætingabónus fyrir allt verkafólk sem drýgir þá „hetjudáð“ að ná þriggja ára starfstíma.

Comments

comments