Við kynningu Verkefnisstjórnar sæstrengs var viðtal við Ragheiði Elínu Árnadóttur Iðnaðar- og viðskiptaráðherra í sjónvarpsfréttum RÚV. Þar sagði ráðherra réttilega frá því að sæstrengur kallaði á viðbótar uppsett afl frá nýjum virkjunum. Orðrétt sagði ráðherrann:

„Þarna þarf að ráðast í miklar virkjunar framkvæmdir, það þarf að virkja rúmlega 1400 megavött  sem eru tvær Kárahnjúkavirkjanir með tilheyrandi umhverfisáhrifum. Við vitum að það tekur tíma í umræðu og ekki víst að um það ríki sátt.“

Ýmsir aðilar hafa reynt að snúa út úr orðum ráðherrans, m.a. forstjóri Landsvirkjunar sem með nokkru þjósti sagði í viðtali við sama fjölmiðil daginn eftir:

„Það er ekki þörf á tveimur Kárahnjúkavirkjunum, það hefur hvergi komið fram svo mér sé vitað, og svo sannarlega ekki í þessari skýrslu, ekki neinum sem við höfum lagt til.“

Rétt er hér að upplýsa að ráðherrann hafði rétt fyrir sér, 1400 megavött eru ígildi tveggja Kárahnjúkavirkjanna í uppsettu afli. Áætlun Landsvirkjunar gerir hinsvegar ráð fyrir því að þessu sé mætt með virkjunum úr nýtingarflokki Rammaáætlunar, frá smávirkjunum, vindorku, lág-jarðvarma og aflaukningu í núverandi virkjunum.  Það breytir ekki þeirri staðreynd að ráðherrann fór rétt með.

Comments

comments