Samkvæmt frumvarpi til fjárlaga fyrir árið 2017 sem nú liggur fyrir Alþingi, munu framlög íslenska ríkisins til þjóðkirkjunnar aukast um 113,4 milljónir á næsta ári. Birgitta Jónsdóttir, þingflokksformaður Pírata er ósátt við þessa ráðstöfun og leggur hún til að kirkjan hafi sjálf frumkvæði af því að láta hækkunina renna í heilbrigðiskerfið. Þetta lét Birgitta hafa eftir sér í Harmageddon á X-inu útvarpsstöð. Í þessu viðtali sagði Birgitta meðal annars að Píratar hafi í þrígang látið framkvæma skoðanakönnun um það hvernig almenningur vilji láta forgangsraða fjárlögum. Þar sé kirkjan nánast alltaf í síðasta sæti með lítinn sem engan stuðning.

Þessi ummæli Birgittu hafa farið illa í marga presta og þá sem vilja veg þjóðkirkjunnar sem mestan. Hildur Eir Bolladóttir sóknarprestur á Akureyri skrifaði færslu á Facebook síðu sína þar sem dregur fram vanþekkingu Birgittu á starfsemi kirkjunnar. Hildur skrifar:

„Það getur vel verið að þetta sè einmitt það sem kirkjan eigi að gera en það sem stingur mig hins vegar við málflutning Birgittu er augljós vanþekking hennar á starfi kirkjunnar, hún talar eins og kirkjan sè málfundafèlag fólks sem getur ekki sætt sig við deyja þegar staðreyndin er sú að þessi blessaða stofnun er á hverjum degi að halda utan um fólk í angist og neyð, bjóða upp á gjaldfrjálsa sálgæslu á öllum tímum sólarhringsins, gera börnum kleyft að taka þátt í metnaðarfullu tónlistarstarfi, halda úti opnu húsi fyrir nýbakaða foreldra svo þeir einangrist ekki í fæðingarorlofinu, bjóða eldri borgurum að hittast og spjalla yfir kaffi og kökum, virkja listafólk til sköpunar, starfrækja sorgarhópa fyrir fólk sem hefur misst maka eða börn ofl ofl ofl. Vitiði èg nenni ekki lengur að bjóða hinn vangann í þessari umræðu, èg er orðin ógeðslega þreytt á því hvernig kirkjan er töluð niður af vanþekkingu og hroka“

Lái henni hver sem vill. Það er rétt sem hér er bent á að kirkja vinnur mikið og óeigingjarnt starf á ýmsum vígstöðvum og oftast án þess að hampa því sérstaklega.

Comments

comments