Dagur_Gudfinna

Nú eru að verða komin 2 ár síðan Dagur B. Eggertsson borgarstjóri lofaði 2500 -3000 leigu- og búseturéttaríbúðum. Hefur hann ítrekað haldið fundi þar sem hann fer yfir uppbyggingaráætlanir borgarinnar sem er í raun upptalning á því sem aðrir eru að framkvæma í borginni. Hefur meirihlutinn í borginni verið gagnrýndur fyrir það að hafa engar lóðir til sölu og einblína á uppbyggingu og þéttingu byggðar í póstnúmeri 101.  Lóðirnar sem verið er að byggja á hafa verið í höndum annarra aðila í mörg ár, fasteignafélaga og banka. Ljóst er að þessir aðilar eru ekki að byggja ódýrar leigu- og búseturéttaríbúðir eins og lofað var.

Borgin hefur ekki boðið til sölu fjölbýlishúsalóðir með fleiri en 5 íbúðum lengi. Hinn 18. nóvember sl. lagði Guðfinna Jóh. Guðmundsdóttir borgarfulltrúi Framsóknar og flugvallarvina fram tvær fyrirspurnir í borgarráði sem svarað var í vikunni, að hluta.

Annars vegar óskaði hún eftir upplýsingum um þær lóðir sem borgin væri með til sölu fyrir fjölbýlishús með fleiri en 4 íbúðum og hins vegar var óskaði hún eftir upplýsingum um það hvenær og hvaða 10 lóðir það væru sem borgin úthlutaði síðast undir fjölbýlishús með fleiri en 5 íbúðum og þá hversu mörgum.

Tók það borgarstjóra 8 vikur að svara fyrirspurnunum þrátt fyrir að þær séu ekki ýkja flóknar.  Hástemmd loforð um opna stjórnsýslu og gagnsæi virðast ekki alltaf eiga við. Svarið við fyrri spurningunni var einfaldlega að engar lóðir væru til sölu. Svarið var nú ekki flóknara en það en samt tók það Dag og hans fólk 8 vikur að svara.

Í svarinu við seinni spurningunni var ekki upplýst um þessar 10 lóðir með fleiri en 5 íbúðum, heldur eingöngu sagt frá síðustu fimm lóðunum sem var úthlutað fyrir 5 íbúðir. Það var ekki spurt um það heldur fjölbýlishúsalóðir með fleiri en 5 íbúðum. Þá var bent á það í svarinu að þremur öðrum lóðum hafi verið úthlutað án þess að íbúðafjöldi væri tilgreindur. Jafnframt sem bent var á það að á síðasta kjörtímabili hafi einni lóð verið úthlutað fyrir 8 íbúða raðhús og einni lóð undir 95 stúdentaíbúðir. Hafa Framsókn og flugvallarvinir ítrekað spurninguna.

Núna þegar 19 mánuðir eru liðnir af kjörtímabilinu bólar ekkert á efndum kosningaloforðsins um þúsundir íbúða hjá Degi og engar fjölbýlishúsalóðir eru til sölu. Kosningaloforðið fólst kannski bara í því að telja upp hvað aðrir væru að byggja í borginni og að þetta myndi bara allt saman reddast með einhverjum hætti.

Blog Guðfinnu um málið má finna hér

Comments

comments