Ég er dálítið hugsi yfir því af hverju það er ekki upplýst hverjir þeir 600 Íslendingar eru sem tengjast Panama-skjölunum. Eftir hverju er verið að bíða með að upplýsa það?

Ég tel það gríðarlega mikilvægt að allar þær upplýsingar sem eru til um aflandseignir Íslendinga verði gerðar opinberar sem fyrst til að draga úr tortryggni og efa í samfélaginu og að upplýst verði hverjir hafa komist hjá því að greiða skatta og skyldur til samfélagsins eins og lög kveða á um.

Ég vil fá að vita hvort einhverjir t.d. úr atvinnulífinu eða öðrum áhrifageirum samfélagsins tengjast þessum skattaskjólslöndum. Eru þarna kannski aðilar sem hafa sagt við alþýðuna að hún þurfi að sýna hófsemd í kröfum sínum til launabreytinga til að viðhalda hér efnahagslegum stöðugleika? 

Allavega er gríðarlega mikilvægt að alþýða þessa lands sem tapaði 500 milljörðum af lífeyri sínum vegna glórulausra fjarfestinga lífeyrissjóðanna í atvinnulífinu fyrir hrun og þurfti að taka á sig aukna skattabyrði upp á 420 milljarða til að endurreisa fjármálakerfið fái að vita hvaða áhrifamenn og konur tengjast skattaskjólum með það að markmiði að komast hjá því að leggja til samfélagsins það sem þeim ber.

Comments

comments