Það var orðið löngu tímabært að bæta ástand gatnakerfisins í Reykjavík en á sama tíma þegar farið er í framkvæmdir sem þessar þá þarf að skipuleggja og gera ráð fyrir flæði umferðar.  Slík fyrirhyggja virðist ekki vera til staðar með lagfæringarnar á Miklubraut.

Rýnihópur fór yfir öryggismál fyrirhugaðra framkvæmda og lagði til að leitað yrði allra leiða til að tryggja tvær akreinar í hvora átt á framkvæmdatímanum. Bent var á að mögulegt væri að hafa tvær þrengri akreinar þar sem megin hluti umferðarinnar gæti farið í tveimur rásum. Hámarkshraði lækkaður á framkvæmdasvæðinu enda tryggðu tvær akreinar betra umferðarflæði og öryggi um þessa megin stofnæð Reykjavíkur. Öfugt við það sem rýnihópurinn lagði til þá ákvað verkefnastjórn framkvæmdanna að loka annarri akreininni úr austri til vesturs. Þessi þrenging hefur haft mjög neikvæð áhrif á umferð langt út fyrir svæðið í kringum Klambratún.

Svo virðist sem ekki hafi verið gert ráð fyrir því að tryggja forgang viðbragðsaðila lögreglu, sjúkraliðs og slökkviliðs á framkvæmdasvæðinu og víðar. Þarna skammt frá er þjóðarsjúkrahúsið, Landspítali, sem nánast er hafður í gíslingu á háannatímum vegna þessara umferðaþrenginga. Sú sjálfsagða krafa er gerð til þeirra sem reka umferðarmannvirkin í borginni að allt verklag sé meðvitað með öryggi og þægindi borgaranna í fyrirrúmi.

Myndir: FÍB

Comments

comments