Hugsið ykkur að einn maður að nafni Steve Edmundson stýrir 35 milljarða dala lífeyrissjóði fyrir opinbera starfsmenn í Nevada í Bandaríkjunum.

Takið eftir að miðað við gengi Bandaríkjadollarans í gær er þessi lífeyrissjóður sem þessi eini maður stjórnar jafn stór og allt lífeyriskerfið okkar eða um 3500 milljarðar íslenskrar króna.

Það kemur líka fram í þessari frétt að árslaun Steve eru rétt rúmir 127 þúsund dalir, eða sem nemur 1,1 milljón á mánuði.

Á litla Íslandi erum við með um 33 lífeyrissjóði og það kostar um eða yfir 10 milljarða á ári að reka okkar lífeyrissjóðskerfi.

Þessi rekstarkostnaður lífeyrissjóðanna er líka uppundir helmingi hærri en sú upphæð sem það kostar að reka æðstu stjórn íslenska ríkisins. Þar undir eru Alþingi, Ríkisendurskoðun, ríkisstjórnin, Hæstiréttur, embætti forseta Íslands og umboðsmaður Alþingis. Heildarkostnaður við þessa æðstu stjórn nemur 5 milljörðum á árinu 2016 samkvæmt fjárlagafrumvarpi.

Það er semsagt ekki bara að einn maður í Bandaríkjunum stjórni einn lífeyrissjóði sem er jafn stór og allt lífeyriskerfið okkar heldur er rekstrarkostnaður íslensku sjóðanna helmingi meiri en kostar að reka æðstu stjórn ríkisins!

Er ekki eitthvað skrítið við þetta? Og þarfnast þetta ekki umræðu og skoðunar?

Greinin var upphaflega birt hér

Comments

comments