Gunnlaugur Stefánsson skrifaði grein í Fréttablaðið fyrir skömmu síðan sem vakið hefur nokkra athygli. Þar dregur Gunnlaugur fram nokkrar staðreyndir um íslenska umhverfispólitík sem stundum getur tekið á sig skringilegar myndir. Gunnlaugur skrifar:

„Fyrir nokkrum árum fóru sérfræðingar að boða hrun í gæsastofninum og kvað svo rammt að boðskapnum, að málið var tekið upp á Alþingi og töldu sumir þingmenn þess vegna koma til greina að banna skotveiðar á gæs. Þetta kom okkur, sem deilum kjörum með fuglum, fiskum og dýrum, í opna skjöldu, því fjölgun gæsarinnar væri meiri en góðu hófi gegndi með óhjákvæmilegum ágangi og skaða fyrir gróðurfar landsins.

Síðar kom í ljós, að allt var þetta á misskilningi byggt. Gæsin væri talin á vetrarbeit í Skotlandi, en stórir hópar höfðu „villst“ á leiðinni og sest að yfir veturinn í Noregi og ekki hafði verið gert ráð fyrir slíkum villum í talningunni. Engum datt í hug að spyrja fólkið í dreifðum byggðum sem deilir kjörum með gæsinni.“

Gunnlaugi er greinilega ekki skemmt, en honum finnst svokallaðir skrirfborðs umhverfissinnar hafa allt of mikil áhrif á framgang mála. Grípum aftur niður í grein Gunnlaugs:

„Nú hefur sprottið upp af skrifborðum á þurrkasvæðunum í Reykjavík sérstök þrá til að vernda vaðfugla og þá kemur ekkert annað til greina en að skapa votlendi með því að fylla skurði til sveita með mold og möl. Ekki hefur enn verið sérstaklega tilgreint hver á að borga, en líklega ekki hugmyndasmiðir úr sínum sjóðum. Samt vekur athygli, að í einustu mýrinni í Reykjavík keppast menn við að þurrka upp í stríði við vaðfuglana, byggja hvert mannvirkið af öðru í Vatnsmýrinni, svo örugglega verði ekki eitt einasta blautt strá að finna í reykvískri mold.“

Engum dylst að hér er Gunnlaugur að gera góðlátlegt grín af borgarstjóra og hans meðreiðarsveinum í flugvallarmálinu. Þar eru jú áform um að þurrka upp frægustu mýri landsins og byggja á henni og engin veltir fyrir fuglalífinu þar. Gunnlaugur er ómyrkur í máli og segir síðar í greininni:

„En ef fylla á fjörð af grút vegna risalaxeldis í líkingu við skolpfrárennsli frá 150 þúsund manna borg með óafturkræfum skaða fyrir lífríkið, fugla og fiska, og um síðir fyrir mannlífið líka, þá stendur ekki á ókeypis leyfisveitingum frá skrifborðum í Reykjavík. Það þykir fínt um þessar mundir að dekra við skrumið í umhverfismálum á Íslandi.“

Grein Gunnlaugs í heild sinni má finna hér

Comments

comments