„Hafa það sem sannara reynist. Andri Snær fer mikinn vegna gagnrýni minnar á ummæli Bjarkar Guðmundsdóttur um að forsætis- og fjármálaráðherra væru sveitalubbar sem vildu eyða hálendi Íslands. Hún hefur áður kallað ríkisstjórnina í viðtali við The Guardian geðveika og sagt ranglega að Íslenskir stjórnmálamenn hafi verið sendir í fangelsi eftir hrunið. Það er engu líkara en að allt verði vitlaust ef manni dettur í hug að svara slíkum ummælum.
Ekki er allt rétt sem Andri fer fram með. Hann telur mig t.a.m. í öðru kjördæmi en ég er þingmaður fyrir. Ekki að það skipti höfuðmáli, en rétt skal vera rétt. Þá á álver í Helguvík að vera gæluverkefni mitt en frá því ég tók við sem formaður atvinnuveganefndar þingsins hef ég ekki haldið svo mikið sem einn fund um álver í Helguvík. Slíkur er nú áhuginn. Ég hef einnig talið umræðu um álver norðan heiða fullkomlega óraunhæfa hugmynd og talað gegn henni.
„Náttúruvendarsinnar hafa þurft að gerast talsmenn fyrir venjulegan kísildalsfrumkvöðlakapítalisma“ segir Andri. Ég hef tekið þátt í því sem þingmaður ríkisstjórnarflokkana að auka framlög til vísinda- og nýsköpunarsjóða þannig að þau hafa aldrei verið hærri en nú. Einnig samþykktum við á landsfundi Sjálfstæðisflokksins að sérstaklega skyldi hugað að þörfum lítilla sprotafyrirtækja sem almennt eiga erfitt með að fá fjármagn úr þessum samkeppnissjóðum. Áhugi minn á uppbyggingu á þessu sviði er mikill eins og almennt á við um uppbyggingu í atvinnlífi og verðmætasköpun þjóðarinnar.
Ég er mjög sáttur við kraftinn og sköpunargleðina sem býr í fólkinu í landinu og ekki geri ég lítið úr þeirri kynningu sem Björk Guðmundsdóttir hefur fært okkur. En þeir sem eiga að mínu mati mestan heiður að uppbyggingu íslenskrar ferðaþjónustu eru Alfreð Elíassson og aðrir frumkvöðlar Íslenskra flugfélaga. Að gera Ísland að þeirri miðstöð í millilandaflugi sem þeir gerðu hefur haft meiri áhrif en nokkuð annað í að koma landinu á kortið.
Skynsamleg nýting endurnýjanlegra orkugjafa okkar er ein af grunnforsendum þess að byggja hér upp öflugt velferðakerfi sem m.a. getur sómasamlega haldið utan um þá sem að minna mega sín í okkar samfélagi. Með öflugu dreifikerfi raforku skapar það tækifæri til byggðafestu og leggur grunn að því að ungt fólk með hina ýmsu menntun geti skapað sér framtíð til búsetu jafnt á landsbyggðinni sem og á höfuðborgarsvæðinu. Að líkja því stöðugt við einhverja stóriðjustefnu sem sett er fram í neikvæðri merkingu er ekki gert nema til að slá ryki í augun á fólki. Ég tel mig ekki þurfa að biðja Björk Guðmundsdóttur afsökunar á því sem ég lagði upp með í stuttum pisli mínum. Fólk, hvort sem það er þekkt eða ekki, sem setur fram gagnrýni með gífuryrðum hlýtur að gera ráð fyrir viðbrögðum.“

Comments

comments