Sá hópur stækkar stöðugt sem gerir sér grein fyrir þeim vanda sem fylgir lífeyriskerfinu eins og það er uppbyggt í dag. Líklegt er að helstu átakalínur framtíðarinnar verða tengdar lífeyriskerfinu á einn eða annan hátt. Sífelt fleiri koma fram og lýsa skoðunum sínum á þessu kerfi sem merkilegt nokk, er í fóstri hjá verkalýðsfélögum landsins.  Einn af þeim er Gunnar Tómasson hagfræðingur sem starfaði lengi fyrir alþjóða gjaldeyrissjóðinn. Gunnar skrifaði stutta en mjög áhrifamikla grein á Pressuna þar sem hann rekur í vandann sem við er að etja og bendir á nauðsyn þess að ný ríkisstjórn taki á vandanum. Gunnar skrifar:

„Ríkisstjórn XB og XD er umhugað um að létta skuldabyrði heimilanna.
En fer í geitarhús að leita ullar – í séreignasparnað heimilanna og fugla í skógi en ekki löngu tímabæra breytingu á öfugsnúnu lífeyrissjóðakerfi.
Greiðsla iðgjalda laumþega og atvinnurekenda til lífeyrissjóðanna lamar eftirspurn eftir vörum og þjónustu sem launþegar geta staðið undir með atvinnutekjum sínum.
Að sama skapi lamar iðgjaldagreiðslan þann drifkraft hagvaxtar og atvinnusköpunar sem felst í kaupmætti almennings af atvinnutekjum.
Opinber skattlagning og iðgjaldagreiðslur af atvinnutekjum eru af þeirri stærðargráðu að SKULDSETNING er eini valkostur sem tugþúsundir heimila landsins hafa til að fjármagna nauðsynlegan framfærslukostnað.
Á hverju ári hefur slík skuldsetning farið yfir þolmörk heimilanna – og að meðaltali eru þrjár fjölskyldur sagðar hafa misst húsnæði sitt á hverjum degi frá 2008 vegna skatta, lífeyrissjóðsgreiðslna, óviðunandi hagvaxtar og atvinnutækifæra annarra en láglaunastarfa.
Það er löngu tímabært að stjórnvöld taki á vandanum, eða víki ella.“
Ólafur Margeirsson doktor í hagfræði skrifaði einnig blogfærslu á Pressuna í janúar 2014 þar sem hann útskýrði vel skilgreininguna sem höfundar bókarinnar Why Nations Fail, þeir Acemoglu og Robinson, settu fram í bók sinni. Þar skilgreindu þeir stofnanalega þætti hagkerfisins,  á borð við lagaumhverfi, almennt viðskiptaumhverfi, og pólitískst skipulag í tvo þætti sem þeir kölluðu  „extractive“ og „inclusive.“ Skoðum þessar þýðingar Ólafs á þessum skilgreiningum og byrjum á því að skoða hvað átt er við með  „extractive“:
„„Extractive“ stofnanalegur þáttur er skipulagslegur þáttur í viðkomandi hagkerfi sem kemur einum þjóðfélagshópi augljóslega betur en öðrum.Þessi þjóðfélagshópur getur þá notað viðkomandi skipulagsþátt til að beinlínis nota aðra þjóðfélagshópa til eigin hagsbóta. Þetta leiðir til þess að hægt er að kalla viðkomandi stofnanalegan þátt „extractive“ en sagnorðið „extract“ þýðir m.a. að vinna eitthvað úr einhverju, t.d. „to extract oil from olives“. Í þessu tilviki er fyrri þjóðfélagshópurinn því að vinna efnahagslegan ábata úr hinum síðari, að sjálfsögðu til eigin hagsbóta.“
Um „inclusive“ þáttinn segir Ólafur:
„„Inclusive“ stofnanalegur þáttur er hins vegar skipulagslegur þáttur þar sem tekið er jafnt tillit til allra þjóðfélagshópa: þar eru allir „meðtaldir“ (e. included) og allir hafa jöfn tækifæri. Hér gildir að enginn getur misnotað eða „unnið eitthvað úr einhverjum öðrum“ í skjóli skipulagslegs þáttar sem beinlínis býr til misskiptingu milli tveggja ólíkra aðila.“
Þeir sem hafa kynnt hafa sér íslenska lífeyrissjóðskerfið gera sér grein fyrir því að samkvæmt þeim kenningum sem Acemoglu og Robinson settu fram í bókinni Why Nations Fail er lífeyriskerfið „Extractive“. Ólafur er sama sinnis og skrifar niðurlag í grein sinni þar sem hann segir:

„Það eru tvær áberandi ástæður fyrir því. Í fyrsta lagi er kynslóðum mismunað innan íslenska lífeyriskerfisins. Engin von er til þess að hinir yngri muni bera hið sama úr býtum og hinir eldri. Þannig eru hinir eldri í raun að „vinna úr“ hinum yngri. Yngri kynslóðir dagsins í dag eru þegar byrjaðar að bera kerfið uppi og það m.a.s. fyrir margt löngu. Þannig fer of stór hluti atvinnutekna fólks í að halda uppi lífeyriskerfinu sem leiðir til þess, eins og Gunnar bendir á í sínum pistli, að til að viðhalda lífsgæðum eru búin til lán og skuldir. Ekki þarf að hafa mörg orð um þau vandræði sem það hefur í för með sér.

Í öðru lagi er íslenska lífeyriskerfið of stórt, fjárhagslegur styrkur þess er orðinn of stór. Þetta eitt og sér er hættulegt en sambland þessa atriðis við þá staðreynd að atvinnurekendur og verkalýðsforkólfar skipta með sér setu í stjórnum margra sjóða, í stað þess að notast við beina og sanngjarna lýðræðislega kosningu meðal sjóðfélaga í þeim öllum, ýtir svo sérstaklega undir þá stórhættulegu stöðu að sjóðirnir geta ráðið því hvaða fyrirtæki fá „að lifa“ og hver verða að deyja. Þá geta stjórnarmenn lífeyrissjóða skyndilega fundið sig í slíkum aðstæðum að það getur verið freistandi að nota fjárhagslegan styrk viðkomandi sjóðs til að styðja við eigin fjárfestingar. Eitt eftirminnilegasta dæmið um slíkt: Marel og Lífeyrissjóður verzlunarmanna. Slíkar leikreglur og uppbygging eru ekki sanngjarnar á nokkurn hátt, líkt og hugmyndin með „inclusive“ stofnanalegu umhverfi er.

Það er einkenni „extractive“ þátta í hagkerfum að þeir eru góðir fyrir fáa en slæmir fyrir heildina. Því miður er lífeyrissjóðakerfið íslenska dæmi um slíkt. Það þarf að endurskipuleggja kerfið, hagkerfinu og þjóðinni sem heild til hagsbóta. En vitanlega er og verður þrýstingur á móti slíkum breytingum töluverður, einkum og sér í lagi frá þeim sem hagnast mest af því að halda því óbreyttu.“

Þetta er nokkuð merkileg staðreynd í því ljósi að Verkalýðsfélög með ASÍ í broddi fylkingar verja þetta kerfi sem heldur fólki í heljargreipum fátæktar og gefur forréttindahópum í þjóðfélaginu heimildir til þess að nota aðra þjóðfélagshópa til eigin hagsbóta.
Kristján Sigurður Kristjánsson skrifar færslu á Facebook vegg sinn sem lýsir að mörgu leiti tilfinningu fólks fyrir lífeyriskerfinu á Íslandi. Kristján setur þetta fram í 36 tölusettum fullyrðingum. Við skulum loka þessum hugleiðingum um lífeyrissjóðakerfið með þessari upptalningu Kristjáns.

1. Lífeyriskerfið eykur skuldsetningu heimila.
2. Lífeyriskerfið eykur skuldir heimila.
3. Lífeyriskerfið eykur matarreikning heimila.
4. Lífeyriskerfið eykur húsnæðirreikning heimila.
5. Lífeyriskerfið eykur bifreiðareikning heimila.
6. Lífeyriskerfið eykur fátækt heimila.
7. Lífeyriskerfið eykur misskiptingu auðs heimila.
8. Lífeyriskerfið eykur vaxtagreiðslur heimila.
9. Lífeyriskerfið eykur sundrun heimila.
10. Lífeyriskerfið dregur úr launum launþega
11. Lífeyriskerrfið dregur úr eftirspurn eftir vörum.
12. Lífeyriskerfið dregur úr framleiðslu fyrirtækja.
13. Lífeyriskerfið dregur úr hagvexti.
14. Lífeyriskerfið dregur úr atvinnusköpun.
15. Lýfeyriskerfið dregur til sín menntað fólk til einskis.
16. Lífeyriskerfið dregur úr hálaunastörfum en eykur láglaunastörf.
17. Lífeyriskerfið dregur til sín vafasama fjárfesta.
18. Lífeyriskerfið dregur að sér fjármálaspillingu.
19. Lífeyriskerfið dregur úr lýðræðislegri umræðu.
20. Lífeyriskerfið dregur allan mátt úr stjórnmálalífi.
21. Lýfeyriskerfið lagði grundvöll að bönkunum sem hrundu.
22. Lífeyriskerfið hvolfdi yfir 1.200 milljörðum yfir landsmenn 2008.
23. Lífeyriskerfið er grundvöllur stríðsins sem hófst í okt. 2008.
24. Lífeyriskerfið breytti verkalýðshreyfingunni í fjárfesti eingöngu.
25. Lífeyriskerfið brýtur niður heilbrigðiskerfið.
26. Lífeyriskerfið rændi eigum gamlafólksins á EIR.
28. Lífeyriskerfið hefu rænt heimilin í landinu um þúsundir milljarða og fært fjárfestum til geymslu á Tortóla, Panama og víðar.
29. Lífeyriskerfið er grunnurinn að fátækt í landinu.
30. Lífeyriskerfið ber ekkert jálvætt í sér.
31. Lífeyriskerfið er grunnurinn að misskiptingu auðs í landinu.
32. Lífeyrirkerfið gerir þröngum hópi fjárfesta kleift að nota fjölmennan hóp sér til ábata.
33. Lífeyriskerfið fær meiri skattaafslátt en nemur öllum eftirlaunum.
34. Lífeyriskerfið hindrar að ungt fólk geti stofnað fjölskyldu.
35. Lífeyriskerfið hindrar að gamalt fólk lifi fjölskyldulífi.
36. Lífeyriskerfið á hundruði milljarða á aflandsreikningum.

Comments

comments