Vilhjálmur Birgisson verkalýðsleiðtogi skrifar á Facebook:

Á morgun er vaxtaákvörðunardagur hjá Seðlabankanum og það verður gríðarlega forvitnilegt að fylgjast með hvort Seðlabankinn muni ekki tilkynna verulega lækkun stýrivaxta þá.

Eins og sést á þessari mynd eru raunvextir á Íslandi 3% á meðan þeir eru neikvæðir í öllum þeim löndum sem við viljum bera okkur saman við. Þessu vaxtaokri sem íslensk heimili, almenningur og fyrirtæki hafa þurft að þola hér um áratugaskeið verður að linna í eitt skipti fyrir öll.

Við höfum rætt saman, ég og Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR um hvort ekki sé full ástæða fyrir Verkalýðsfélag Akraness og VR til að boða til kröftugra mótmæla ef Seðlabankinn mun ekki lækka vexti verulega á morgun. Þetta erum við að íhuga sterklega og bíðum því spenntir eftir að sjá hvort Seðlabankinn muni koma með veglega stýrivaxtalækkun á morgun, íslenskum heimilum og fyrirtækjum til heilla.

Comments

comments