Róbert Spencer sem var hér fyrir nokkrum dögum að flytja fyrirlestu um múslimavæðingu Evrópu skrifar á forsíðu Front Page Magasín að reynt hafi verið að eitra fyrir honum á Íslandi. Hann telur að vinstrisinnaðir öfgamenn hafi staðið fyrir þessari árás. Hann skrifar í lauslegri þýðingu:

„Ég er sann­færður um að sá sem eitraði fyr­ir mér gekk í burtu ánægður með það sem hann gerði. Ef hann hefur sagt ein­hverj­um frá því er ég viss um að hon­um hef­ur verið fagnað sem hetju. Ég geri mér grein fyr­ir því að marg­ir sem munu lesa þetta verða hæst­ánægðir með að ég hafi orðið al­var­lega veik­ur. Það eitt og sér er til marks um það hversu úr­kynjaður og ill­ur vinstri­væng­ur­inn er orðinn.“

Spencer seg­ist hafa farið á veit­inga­húsið ásamt fleir­um eft­ir fund­inn og þar hafi tveir ung­ir menn heilsað upp á hann. Báðir hafi þeir tekið í hönd­ina á hon­um, ann­ar sagst vera aðdá­andi og hinn hafi sagt við hann: „Fuck you.“ Hann tel­ur að sá fyrri hafi lík­lega laumað ein­hverju lyfi í glas hans enda hafi hann komið mun nær sér. Kort­eri síðar, þegar hann hafi verið kom­inn upp á hót­elið sitt, hafi hann fundið fyr­ir doða í and­liti, hönd­um og fót­um, hann hafi skolfið og kastað upp. Þá hafi hann fengið mjög öran hjart­slátt. Hann hafi varið nótt­inni á sjúkra­húsi í kjöl­farið. Þar hafi verið staðfest að lyf hefði fund­ist í blóði hans. Hann væri sjálf­ur ekki á nein­um lyfj­um.

Spencer seg­ist hafa verið veik­ur í nokkra daga á eft­ir. Hann hafi farið á lög­reglu­stöð og til­kynnt málið. Strax hafi verið farið í það að hafa uppi á þeim sem mögu­lega bæru ábyrgð. Meðal ann­ars með því að skoða upp­tök­ur úr ör­ygg­is­mynda­vél­um á veit­ingastaðnum. Sjálf­ur hafi hann með lít­illi fyr­ir­höfn fundið nafn, síma­núm­er og Face­book-síðu þess sem lægi aðallega und­ir grun. Spencer seg­ist þó ekki ætla að hringja í mann­inn. Lög­regl­an myndi vænt­an­lega sjá um það. Hins veg­ar hefði ekk­ert á Face­book-síðu hans bent til þess að um raun­veru­leg­an aðdá­anda væri að ræða held­ur þvert á móti.

Spencer fer síðan hörðum orðum um um­fjöll­un fjöl­miðla og annarra um heim­sókn hans til lands­ins. Fjöl­miðlar hafi verið upp­full­ir af frétt­um um að vond­ur maður væri á leiðinni til lands­ins og rætt við þá nokkra tugi ein­stak­linga sem mót­mælt hafi komu hans. Hins veg­ar hafi ekki verið leitað eft­ir viðbrögðum hans sjálfs.

Grím­ur Gríms­son, yf­ir­lög­regluþjónn hjá lög­regl­unni á höfuðborg­ar­svæðinu staðfesti í samtali við mbl.is að  slíkt mál hafi komið inn á borð lög­regl­unn­ar. Rann­sókn á mál­inu sé á frum­stigi og verið að afla gagna um það.

Comments

comments