Elías Bjarni Elíasson skrifar á Facebook:

Það er eins og sagt er, á Íslandi er ekkert veður, bara sýnishorn. Það merkilega er, að það er líka svo með veðrið á jörðinni, til dæmis hitann á Suðurskautslandinu eins og sést á þessari mynd. Hér er hann borinn saman við CO2 magn andrúmsloftsins síðast liðin 450 þús. ár. Óneitanlega fylgist þetta að, en það vekur athygli, að hitinn er með hærra móti núna og ætti, ef allt væri eins og áður, að vera á niðurleið. Er öll olíubrennslan ef til vill að redda okkur frá annarri ísöld? Að mörgu má spyrja í fáviskunni, eða vita menn svo gjörla hvað veðrið mun gera?

Umræðan um hlýnun jarðar er rekin eins og trúmál. Hver sá, sem leyfir sér að efast um, að Sameinuðu Þjóðirnar séu á réttri leið í svörum sínum við þeim hættum, sem við blasa, kallar yfir sig reiði hinna trúuðu og ásakanir um að hann virði ekki vísindalegar staðreyndir. Sé hann vísindamaður fær hann rit sín ekki birt og enga rannsóknarstyrki, missir jafnvel vinnuna. Ógnina skal stöðugt útmála, en lausnin skal bara vera ein, sú sem elítan hefur samþykkt. Elítan ræður fjárveitingum til rannsókna og ekki grunlaust um, að í skjóli þess geti boðberar trúarinnar blásið upp öflugri hræðsluáróðri en efni raunverulega standa til. Þeir haga sér eins og klerkar kirkjunnar á miðöldum, þegar þeir brenndu Bruno, kærðu Galileo og níddu skóinn af Newton fyrir að samþykkja ekki allar vísindakenningarnar sem misvitrir kirkjunnar menn þóttust sanna með lestri Biblíunnar. Barátta kirkjunnar manna gegn vísindunum hafði ýmislegt gott í för með sér þótt þeir hefðu ekki hugmynd um það og héldu áfram að berjast löngu eftir að nokkur tilgangur var með því. Baráttan gegn kjarnorku til friðsamlegra nota gekk í gegnum sama ferli og margir eru enn hræddir og aðrir vita ekki hvenær rétt er að hætta. Baráttan gegn mengun loftsins mun líka ganga svona fyrir sig.
Þannig er þetta með margar ákvarðanir manna sem skulu gilda um langa framtíð, þær eru teknar innan ramma víðáttumikillar vanþekkingar. Við skulum muna það, þegar á okkur dynur hræðsluáróður um trúleysi, kjarnorku, hlýnun eða hryðjuverk, að best er að lifa lífinu lifandi.

Comments

comments