Forseti Íslands segist í frétt á visir.is vera miður sín vegna máls Roberts Downey, áður Róbert Árni Hreiðarsson, sem í gær fékk lögmannsréttindi sín á ný. Forseti veitti honum uppreist æru samkvæmt tillögu frá Ólöfu Nordal, þáverandi innanríkisráðherra, í september síðastliðnum. Hann undirstrikar að ákvörðunin sé ekki tekin af honum sjálfum – heldur í ráðuneytinu. Hann biður ekki um vorkunn en óskar þess að fólk sýni sanngirni, þá að teknu tilliti til málsmeðferðarinnar.

„Samúð mín er auðvitað öll hjá þeim sem þessi brotamaður braut á. Að þurfa að þola þessa upprifjun núna. Ég er bara eins og aðrir Íslendingar, held ég, að þegar kynferðisafbrot eru annars vegar þá vill maður helst að brotamaðurinn sé læstur inni og lykllinum hent. En við búum líka í réttarríki og leyfðu mér að ítreka þetta – ákvörðunin er ekki tekin hérna.“ Segir Forsetinn í samtali sínu við visir.is.

Yfirlýsingar sem þessar af hálfu Forseta eru tæpast boðlegar. Vissulega hefur embætti Forseta Íslands orðið mannlegra og nánar tengt landsmönnum nú í tíð Guðna. En hann gleymir að á öllum málum eru tvær hliðar og í þessu máli hefði farið betur á því að forsetinn hefði ekki tjáð sig. En í þess stað leyfir Forsetinn sér að stökkva á vagn popúlistans, því miður.

Jón Steinar Gunnlaugsson, lögmaður þess aðila sem hér um ræðir, gagnrýnir fjölmiðla í samtali við visir.is fyrir að rifja upp þau brot sem skjólstæðingur hans var dæmdur fyrir í Hæstarétti árið 2008. Jón segir:

„Aðalatriðið er auðvitað það að við viljum vera siðmenntað ríki sem þýðir að við gefum mönnum sem hafa brotið af sér, verið dæmdir fyrir það og tekið út sína refsingu annað tækifæri. Íslensk lög ganga út á það, menn geta svo fengið uppreist æru og starfsréttindi sín aftur sem hafa verið tekin af þeim,“

Veggurinn tekur undir sjónarmið lögmannsins. Við sem þjóð höfum valið að búa í réttarríki þar sem dómstólar dæma menn til hæfilegrar refsingar brjóti þeir þær grundvallar reglur sem við sem samfélag höfum ákveðið að hér gildi. Það að einstaka fjölmiðlar geti krafist þess í nafni einhverskonar sjálfuppdiktaðrar réttlætingar að fólk sem tekið hefur út refsingu sína verði útskúfað að eilífu gengur ekki upp. Sem dæmi þá varð hópi manna nokkuð á í fjármálahruninu, ég hef ekki séð þessa fjölmiðla beita það fólk samskonar réttlætingu.  Samkvæmt þessu eiga bara sumir að vera dæmdir til eilífrar fordæmingar og aðrir ekki.

Það flýgur upp í hugann „Sá yðar sem syndlaus er kasti……..“

Comments

comments