Vilhjálmur Birgisson

Vilhjálmur Birgisson

Ég skal fúslega viðurkenna að ég er mjög hugsi eftir að hafa horft á kynningu ríkisstjórnarinnar áðan. Í fysta lagi er ekkert í þessu sem kveður á um afnám verðtryggingar og að tekið verði á okurvöxtum fjármálakerfisins enda ná þessar aðgerðir einungis til ungs fólks sem eru að kaupa sína fyrstu húseign. Það sem var jákvætt við þessa kynningu var að það var staðfest svo ekki verður um villst hversu skaðleg 40 ára jafngreiðslulán eru íslenskum neytendum enda kom fram að greiðslubyrði verðtryggðs láns er fyrstu 14 árin hærri en það óverðtryggða og eftir það skiljast leiðir algerlega. Eftir 14 ár heldur höfuðstóll og greiðslubyrði verðtryggða lánsins áfram að snarhækka á meðan óverðtryggða lánið lækkar og þá bæði höfuðstóll og greiðslubyrði. 

Ég hefði sannarlega verið til í að skoða þetta úrræði með því að nýta séreignarleiðina til lækkunar á greiðslubyrði ef hún hefði náð til allra en ekki bara þeirra sem eru að kaupa sína fyrstu eign. Hvað ætla stjórnvöld að gera við öll íslensk heimili sem eru með þessi skaðlegu verðtryggðu lán núna? Af hverju ekki að bjóða heimilunum að fara úr þessum verðtryggðu lánum með því að nýta séreignaleiðina með skattaafslætti? Ef þetta hefði náð til allra þá er ljóst að verðtryggð fasteignalán hefðu heyrt sögunni til því með séreignaleiðinni væri greiðslubyrðin jafn há fyrstu 14 árin en eftir það myndi greiðslubyrði óverðtryggða lánsins lækka á meðan verðtryggða lánið hækkar. Þarna er tækifæri að eyða verðtryggingunni með slíkri aðgerð.

En vissulega má spyrja af hverju er ekki tekið á okurvöxtum fjármálakerfisins? Maður spyr sig líka af hverju eiga skattgreiðendur að halda áfram að niðurgreiða okurvexti fjármálakerfisins um 15 milljarða á 10 ára tímabili og það á sama tíma og bankakerfið hefur skilað 500 milljörðum í hagnað frá hruni. Af hverju þora stjórnmálamenn ekki að taka á fjármálakerfinu? Af hverju er alltaf verið plásta núverandi kerfi til þess eins að fjámálakerfið geti fengið að halda áfram að okra á íslenskum almenningi? Það er ljóst að þessar tillögur eru ekki til þess fallnar að taka á okurvöxtum fjármálakerfisins. En nú liggur fyrir að þessar tillögur eru komnar fram því þarf í það minnsta að tryggja að þær nái til allra líka þeirra sem eru með verðtryggð lán núna, ekki bara þeirra sem eru að festa kaup á fyrstu eign.

Comments

comments