lifeyrissjodirÍslensku lífeyrissjóðirnir eru svokallaðir uppsöfnunarsjóðir. Þeir innheimta iðgjöld og fjárfesta fyrir hönd sjóðsfélaga sinna. Það er síðan á loka æviskeiði hvers sjóðsfélaga sem sjóðirnir að megninu til greiða út til félaga sinna m.a. í formi eftirlauna, örorkubóta og annarra greiðslna sem eru bundnar í lög.

Annar valkostur við uppbyggingu lífeyrissjóðanna hér á landi hefði verið svonefnt gegnumstreymiskerfi sem er fjármagnað með skatttekjum á hverjum tíma. Þannig eru greiðslur til þeirra sem njóta lífeyris fjármagnaðar af þeim sem stunda atvinnu og greiða í kerfið á hverjum tíma.

Báðar þessar leiðir eru í raun skattlagning sem ætlað er að tryggja ákveðin lífsgæði á efri árum. Hins vegar felst sú áhætta í uppsöfnunarsjóðsleiðinni sem hefur orðið ofan á hér á landi að fjárfestingar misfarast. Slíkt vorum við rækilega minnt á í kjölfar bankahrunsins 2008 þar sem lífeyrissjóðir landsmanna töpuðu gríðar háum upphæðum. Auk þess er rétt að benda hér á að þegar lagt er saman skattur til ríkis, sveitarfélaga og lífeyrissjóða þá er skattpíning hér á landi út úr öllu korti í samanburði við þau lönd sem við viljum bera okkur saman við.

Benedikt Sigurðarson, framkvæmdastjóri Búseta á Akureyri hefur bent á að ávöxtunarkröfur lífeyrissjóðakerfisins séu ósjálfbærar. Með uppsöfnunaráhrifum svelgja sjóðirnir til sín 6 til 10% af landsframleiðslu. Ungur einstaklingur sem byrjar að greiða í lífeyrissjóð í dag og ætlar sér að taka út fé á lokaskeiði ævinnar, hefur enga tryggingu fyrir því að sjóðurinn sem hann velur hafi getu til þess að standa við skuldbindingar sínar.  Eina raunhæfa leiðin til þess að tryggja og  „verðtryggja“ lágmarkslífeyri fyrir alla er með því að greiða lífeyrinn af samtímatekjum á vinnumarkaði. Taka upp gegnumstreymiskerfi.

Kerfisbreyting sem þessi mundi þýða að skyldugjald hvers vinnandi manns mundi lækka úr 15,5 til 18% niður í 5 til 8%. Benedikt bendir á að með þessháttar aðgerð yrði mjög mikil kjarabót án þess að stofnað yrði til aukins kostnaðar fyrir atvinnulífið.

Lífeyriskerfi okkar skapar lýðræðisvanda og ýtir hressilega undir misskiptingu auðs og óeðlilega dreifingu fjármagns. Sjóðirnir hafa í skjóli gríðarlegrar auðsöfnunar, fest kaup á mörgum grunnþáttum þjóðlífsins og orðið ráðandi á mörgum sviðum. þannig eru innviðir samfélagsins margir ofurseldir ávöxtunaryfirgangi lífeyrissjóða.  Nægir þar að nefna það ægivald sem lífeyrissjóðir hafa á allri dagvöruverslun og bensín og olíudreifingu. Sjóðirnir sem stofnaðir voru í skjóli verkalýðshreyfingarinnar, og ætlað var að tryggja hinum almenna launamanni öryggi á eldri árum hafa fyrir löngu glatað þeim markmiðum sínum. Færa má sterk rök fyrir því að sjóðirnir hafi reynst hin mesta óværa og plága á þjóðfélaginu. Þannig hefur fyrirferð þeirra á fjármagnsmarkaði og regluverk í kringum starfsemi þeirra í raun frekar haldið stórum hluta eldriborgara í verulegum vandræðum við framfærslu fremur en að tryggja þeim áhyggjuleysi.

Alveg sama hvernig stjórnarmenn þessara sjóða sprikla. Sjóðirnir eiga eftir að tapa stórum hluta eigna sinna áfram vegna ytri aðstæðna eða mistaka í fjárfestingum líkt og verið hefur. Sífelldar hækkanir á iðgjöldum munu ekki breyta því. Gegnumstreymisaðferðin virðist því vera eina vitræna lausnin.

Stjórnmálamenn hér á landi verða að fara taka þennan málaflokk föstum tökum ef einhver meining á að vera í þeim orðum að hér eigi ekki að ríkja misskipting þegnanna.

Comments

comments