Skórnir sem fundust við Hafnarfjarðarhöfn í gærkvöldi eru í sömu skóstærð og Birna Brjánsdóttir, stúlkan sem leitað er að, notar. Þeir eru jafnframt af sömu tegund og í sama lit og skórnir sem hún var í þegar síðast sást til hennar, en þó er ekki búið að staðfesta að um hennar skó sé að ræða. Um eitt hundrað björg­un­ar­sveit­ar­menn leita núna að Birnu Brjáns­dótt­ur eða vís­bend­ing­um um hvarf henn­ar á svæðinu þar sem skórn­ir, sem hugs­an­lega eru í henn­ar eigu fund­ust.

Að sögn Þor­steins G. Gunn­ars­son­ar, upp­lýs­inga­full­trúa Slysa­varn­ar­fé­lags­ins verður mikill viðbúnaður að hálfu Lands­bjarg­ar í dag. Kafarar, björg­un­ar­bát­ar, kafbátar og drón­ar verða notaðir til viðbótar við gangandi björgunarsveitafólk.

Rannsókn lögreglu beinist fyrst og fremst að skónum, enda liggja fáar aðrar vísbendingar fyrir á þessum tímapunkti. Lögreglan hefur ekki lokað á þann möguleika að skónum hafi verið komið fyrir þarna.

Lögreglan vill biðja fólk sem býr, eða starfar, í miðborginni að aðgæta sitt nánasta umhverfi og kanna hvort að þar sé að finna eitthvað sem geti hjálpað til við leitina. Lögð er áhersla á að svæðið sem markast af Lækjargötu, austur að Skólavörðustíg, Frá Grettisgötu, norður að Sæbraut, sé leitað eins vel og hægt er, t.d. að farið sé í bakhús, kjallara og alla þá staði sem ekki eru aðgengilegir öllu jafna.

Comments

comments