Stöðugt eru að koma fram upplýsingar sem skjóta stoðum undir það að staðsetning þjóðarsjúkrahúss á Skólavörðuholtinu sé afleit hugmynd. Á nútíma spítala þarf að byggja sérstakar sótthreinsistöðvar við smitsjúkdómadeildir. Ástæða þessa er að koma í veg fyrir hugsanlega dreifingu á ónæmum smitsjúkdómavöldum út í umhverfið, ekki síst sýklalyfjaþolinna baktería og hættulegra veira sem geta borist með líkamsvessum og saur sýktra einstaklinga út í fráveitukerfin.

Sérfræðingar í sjúkdómavörnum telja að öruggasta leiðin til að dreifa sýklalyfjaþolnum Colibakteríum til manna og dýra sé að veita sýktu skólpi beint út við strendur landsins. World Health organization (WHO) telur þetta eina af stærstu heilbrigðisógnum mannkyns. Þeir hafa því lagt áherslu á að byggðar séu sérstakar skólp og sótthreinsistöðvar við ný sjúkrahús þar sem skólpi frá þessum mannvirkjum er haldið aðskildu frá gömlum skólplögnum sem oft geta bilað og þá er voðinn vís.

Í ljósi uppákomunnar í fráveitukerfi borgarinnar á síðustu vikum er rétt að krefjast svara um það hvort viðeigandi ráðstafanir hafi verið gerðar á Landspítalalóðinni varðandi skólp og frárennsli. Hvernig hyggjast stjórnvöld tryggja sjúkdómavarnir í miðbæ Reykjavíkur? Verða lagðar sérstakar fráveitulagnir frá spítalanum? Hvert eiga þær að liggja? Eða er hugmyndin sú að dæla affalli Þjóðarsjúkrahússins í fangið á íbúum vesturbæjar Reykjavíkur?

 

 

Comments

comments