Styrmir Gunnarsson, fyrrverandi ritstjóri Morgunblaðsins til áratuga spáir Samfylkingunni dauða á árinu 2016.

Í nýjum pistli sem birtur var á vef ritstjórans styrmir.is segir ritstjórinn fyrrverandi að Samfylkingin sé að deyja sem flokkur. Og rökin eru:

Fyrst og fremst þau að helztu talsmenn hennar hafa ekki lengur neitt að segja um pólitík. Þingmenn hennar geta að vísu haldi uppi málþófi á Alþingi en málþóf og málefnabarátta er tvennt ólíkt.“ (allar feitletranir eru Styrmis.)

Og áfram heldur hann:

„Þessi tilvistarbarátta flokksins endurspeglaðist að einhverju leyti í formannskosningunni á síðasta landsfundi flokksins, þegar Árni Páll var endurkjörinn með eins atkvæðis mun. Þá skapaðist tómarúm í kringum forystu flokksins, sem enginn hefur reynt að fylla upp í. Og Árna Páli hefur ekki tekizt að beina flokknum inn á nýjar brautir. Það hafa heldur engar umræður farið fram á vettvangi flokksins, alla vega ekki fyrir opnum tjöldum, þar sem þessi staða er rædd.

Það ber dauðann í sér fyrir hvaða stjórnmálaflokk sem er að vandamál hans séu ekki rædd.“ (feitletranir eru Styrmis.)

Um Bjarta framtíð skrifar Styrmir:

„Björt Framtíð er í svipaðri stöðu og Samfylkingin en það skiptir minna máli vegna þess að hún vegur nánast ekki neitt í pólitísku samhengi. Formannsskiptin hafa engu breytt, þótt hinn nýi formaður Óttar Proppé segi ýmislegt athyglisvert.“

Þessi sjónarmið Styrmis eru einkar áhugaverð í ljósi þess að hér ritar maður sem lengi hefur haft nef fyrir því hvaða vindar blása í íslenskri pólitík. Styrmir vegur og metur í grein sinni stöðu einstakra flokka. Félagar hans í Sjálfstæðisflokknum fá að heyra það fyrir dugleysi í heilbrigðismálum. Styrmir segir:

 

„Þessi staða arftaka Alþýðuflokksins og tengdra fyrirbæra er athyglisverð ekki sízt vegna þess að stjórnarflokkarnir eiga við sín vandamál að stríða. Þeir geta að vísu státað af því, að hafa náð vissum árangri en veigamikil mál eru í óviðunandi stöðu eins og t.d. heilbrigðismál og málefni aldraðra og öryrkjaSjálfstæðisflokkurinn virðist fastur í fylgi, sem fyrir aldarfjórðungi taldist skelfilegt og hefur sama hátt á og Samfylkingin að ræða þann vanda eins lítið og hægt er.“

Að lokum spyr Styrmir:

„Erum við að upplifa hnignun og fall flokkakerfis 20. aldar?

Hafa viðhorf og viðfangsefni breytzt svo mjög að kalli á endurskipulagningu flokkakerfisins á 21.öld og jafnvel algera umsköpun þess?

Það gæti verið.“

Pistil Styrmis í heild sinni má finna hér

Comments

comments