Alþingi_SDG_HHG samsettí þættinum Eyjunni í umsjón Björns Inga Hrafnssonar á Stöð 2 lýsti Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, forsætisráðherra því að hann er hlynntur því að þjóðin fái oftar að segja skoðun sína í þjóðaratkvæðagreiðslum og vill hann til að mynda sjá þjóðaratkvæðagreiðslu um verðtrygginguna.

„Tökum dæmi af stóru og umdeildu máli eins og verðtryggingunni. Þar hafa menn tekist á árum saman og ekki náð að leiða það til lykta í rökræðu. Ríkisstjórnin er með ákveðin áform í því efni sem hún vinnur að. Við finnum fyrir mótþróa á ýmsum stöðum og höldum áfram að reyna að ýta þessu áfram og breyta og bæta fjármálakerfið. […] Þetta er mál sem maður sæi fyrir sér að væri hægt að setja í að minnsta kosti ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðslu þannig að stjórnvöld hefðu þá þjóðina á bakvið sig í því að fylgja þessu eftir,“

sagði Sigmundur Davíð.

Björn Ingi spurði forsætisráðherra beint hvort verðtryggingin væri mál sem hann væri til í þjóðaratkvæðagreiðslu og sagði Sigmundur að hann væri tvímælalaust til í það. Hann kvaðst sannfærður um að hann fengi stuðning þjóðarinnar við afstöðu sína en eins og kunnugt er hefur Sigmundur talað fyrir afnámi verðtryggingar.

Í tilefni af þessum orðum Sigmundar birti Helgi Hrafn Gunnarsson, kapteinn Pírata, færslu sem hann birti á vefsvæði Pírata í gærkvöldi. Þar segir Helgi:

„Það er ekki aukaatriði, heldur lykilatriði, að frumkvæði að þjóðaratkvæðagreiðslum um mál á Alþingi komi frá þjóðinni en ekki ráðamönnum sjálfum. Ekki einn einasti einræðisherra er á móti þjóðaratkvæðagreiðslum svo lengi sem hann getur sjálfur ákveðið hvað fari í þjóðaratkvæðagreiðslu og hvenær.

Það er því ekki stigsmunur heldur eðlismunur á þjóðaratkvæðagreiðslum að frumkvæði þjóðar annarsvegar og að frumkvæði ráðamanna hinsvegar. Hið fyrra eru lýðræðisumbætur, hið síðara pólitískt vopn handa ráðamönnum. Lýðræðislegir ferlar eru ekki til þess að ráðamenn geti notað þá til að afla sér vinsælda heldur til þess að þjóðin sjálf geti ýmist tekið fyrir hendurnar á Alþingi eða knúið það til að fjalla um tiltekin mál.“

Veggurinn veltir því fyrir sér hvort hér sé ekki sitt hvor hliðin á sama peningnum. Ef meirihluti þjóðar tekur afstöðu skiptir þá nokkru hvaðan frumkvæði fyrir þjóðaratkvæðagreiðslu kemur? Þjóðaratkvæðagreiðsla á ekki að vera eign ákveðinna afla. Allir eiga að hafa jafnan rétt á því að setja mál í dóm þjóðarinnar eftir ákveðnum ferlum og reglum.

Ráðamenn eiga ekki að geta valið hvaða mál fara í þennan feril og stoppað önnur en þeir eiga að sjálfsögðu að geta vísað þangað málum líkt og aðrir þegnar ef þeir þora. Þannig á þjóðaratkvæði ekki að vera til ráðgjafar heldur bindandi ef tilskilinn meirihluti næst.

Comments

comments