brands_montage_shadowVið búum á tímum þar sem allt í kringum okkur blasa við vörumerki. Skiptir engu hvert við beinum sjónum okkar, þau blasa allstaðar við. Fötin sem við klæðumst, skórnir, hlífðarfötin, farartækin, leikföngin, matvaran og svona má lengi telja.

Mikill þytur hefur verið í kringum góðgerðarverkefni Kiwanis hreyfingarinnar á Íslandi þar sem grunnskólabörn hafa árum saman fengið hjálma að gjöf til að auka öryggi þeirra. Það er margsannað að hjálmar bjarga mannslífum. Það er líka staðreynd að fjárfesting í góðum hjálmi er þeim sem minna hafa á milli handa verulega íþyngjandi.

Markmið hjálmaverkefnis Kiwanis hefur frá upphafi verið að stuðla að öryggi barna í umferðinni með því að gefa nemendum 1.bekk reiðhjólahjálma. Bæta þannig öryggi þeirra í umferðinni og koma í veg fyrir alvarleg slys og óhöpp  við hjólreiðar sem er afar vinæl frístundaiðkun auk þess að vera góð samgönguleið.  Hjálmarnir nýtast einnig vel við notkun hjólabretta og hjólaskauta.

drengur_med_hjalm_2011_jpgSkoðum aðeins þessa hjálma og hvernig þeir eru merktir. Hér til hliðar er mynd sem tekin er af vef Kiwanis samtakanna á Íslandi. Á henni sést að merki Eimskipafélagsins er öðru megin aftan á hjálminum og í hóflegri stærð. Svolítið í takt við það sem sjá má á ýmsum þeim vörum sem við klæðumst dags-daglega.

Ýmsir hafa tjáð sig um þetta verkefni síðustu daga og sett fram fullyrðingar sem byggja á pólitískum tilfinningum fremur en almennri skynsemi. Grípum niður í Guðmund Andra Thorsson, hann skrifar:

„Með þessum hjálmum er Eimskipafélagið komið með merkið sitt, ásjónu sína og nærveru inn á hvert heimili landsins, og hangir á snaga frammi á gangi eins og hver annar þátttakandi í lífi fjölskyldunnar, komið í hjarta tilveru ótal landsmanna, inn í daglegt umhverfi nánustu fjölskyldunnar, og tengist þar tilfinningum, djúpum tilfinningum, sjálfri umhyggjunni sem við berum fyrir börnum okkar, og þörf okkar fyrir að finna að þau njóti fyllsta öryggis.“

Á sama snaga hanga úlpur frá Zo-on, Húfan frá 66°, Stígvélin frá Nokia standa þar fyrir neðan og allt er þetta merkt eins og hjálmurinn sem Eimskip greiðir fyrir svo auka megi öryggi barna þessa lands.

Í mínum huga snýst þetta mál fyrst og fremst um öryggi barnanna okkar. Fullyrðingar sem settar hafa verið fram um það að hér sé á ferðinni útsmogin auglýsingabrella að hálfu Eimskipa stenst ekki neina skoðun. Áhrif þessarar merkingar er ekki meiri en merkingar á öðrum þeim hlutum sem við og börnin okkar klæðumst.

Börn eru ekki í markhópi Eimskipafélagsins. Afar ólíklegt er að þau beiti foreldra sína þrýstingi að versla frekar við Eimskip frekar en aðra aðila á sama markaði. Foreldrar þessara barna eru ekki á nokkurn hátt skuldbundin við Eimskip með þessari gjöf. Með þessu sýnir Eimskip samfélagslega ábyrgð (e. Corporate Social Responsibility) og tekur þátt í því að gera samfélagið öruggara fyrir okkur öll.

Löng hefð er fyrir því í okkar þjóðfélagi að fyrirtæki leggi sitt af mörkum til samfélagsins með því að sinna góðgerðarmálum og veiti þannig styrki til ýmis konar starfsemi á sviði menningar og íþrótta svo að dæmi séu nefnd. Í allri umræðu um samfélagslega ábyrgð fyrirtækja verður að gæta þess að rugla ekki saman styrkveitingum við önnur form samfélagslegarar aðstoðar eins og góðgerðarstarfsemi.

Capacent gerði könnun á meðal borgarbúa og spurt var „Ert þú hlynnt(ur) eða and­víg(ur) því að leyfa Kiw­an­is hreyf­ing­unni í sam­starfi við Eim­skip að fara í grunn­skóla og gefa börn­um í 1. bekk reiðhjóla­hjálma og fræðslu­efni um mik­il­vægi og notk­un þeirra?“ Rétt rúm­lega níu af hverj­um tíu sem svöruðu könn­un Capacent segj­ast vera fylgj­andi því að Kiw­an­is-hreyf­ing­in og Eim­skip fái að gefa grunn­skóla­börn­um reiðhjóla­hjálma.

Það er vissulega forræðishyggja þegar kjörnir fulltrúar koma í veg fyrir að börn búsett í Reykjavík geti fengið að taka við þeirri gjöf sem Kiwanis samtökin á Íslandi gefa börnum þessa lands til þess að auka öryggi þeirra. Þvert á vilja mikils meirihluta borgarbúa samkvæmt könnunum Capacent.

Ef þessir fulltrúar ætluðu að vera samkvæmir sjálfum sér ættu þeir að banna öll vörumerki í skólum borgarinnar.

Best færi líklega á því að foreldrar borgarinnar fengju að velja sjálfir hvort þeir vilji þiggja þessa gjöf Kiwanismanna eða ekki.

Comments

comments