Kjarninn

Viðar Garðarsson skrifar:

Kjarninn birti nú fyrir helgina samantekt með ýmsum staðreyndum úr skýrslu Kviku og Pöyry þar sem leitast er við að fara yfir raforkusæstrengsverkefnið heildstætt. Kjarninn dregur fram í umfjöllun sinni 10 staðreyndir úr skýrslunni. Yfirferðin hjá Kjarnanum er skrifuð af blaðamanninum Magnúsi Halldórssyni og tekur hann fyrir nokkrar staðreyndir sem gott er að fá í svona samantekt. Hann hinsvegar annaðhvort hefur ekki rýnt skýrsluna nógu vel eða kosið að sleppa nokkrum veigamiklum staðreyndum. Því hefur Veggurinn ákveðið að bæta við listann í Kjarnanum sem finna má hér.

En fyrst er rétt að skoða atriði númer 10 í samantekt Magnúsar en þar skrifar hann:

„10.   „Það er ekki þörf á tveimur Kára­hnjúka­­virkj­un­­um. Og það hefur hvergi komið fram að mér vit­andi, og svo sann­­ar­­lega ekki í þess­­ari skýrslu og ekki í nein­u ­sem við höfum lagt til. Skýrslan ­­gerir ein­­göngu ráð fyrir að það séu um 250 mega­vött úr hefð­bundnum virkj­unum eins og við þekkjum þær, sem er ígild­i einnar Hraun­eyj­­ar­­foss­­virkj­unnar eða innan við helm­ing af einni Kára­hnjúka­­virkj­un.“ Þetta sagði Hörður Arn­ar­son, for­stjóri Lands­virkj­un­ar, þegar hann var spurð­ur­ út í hvað þyrfti að virkja mikið til að sæstreng­ur­inn gæti orðið að veru­leika.“

Rétt er að halda því til haga að gremja forstjórans í garð ráðherra vegna ummæla hennar er ekki ein af þeim staðreyndum sem skýrslan fjallar um. Því mun Veggurinn leyfa sér að endurskrifa atriði Kjarnans númer 10 og halda svo áfram.

Hefjumst handa og lengjum þá listann yfir þær staðreyndir sem skýrslan varpar ljósi á:

 1. Samkvæmt miðgildis spá skýrslunnar þarf að auka uppsett afl í íslenska orkukerfinu um ríflega 1400 megavött, ef af lagningu raforkusæstrengs verður.  Það er ígildi 2 Kárahnjúkavirkjanna í uppsettu afli.
 1. Fyrir þessi 1400 megavött af uppsettu afli fyrir raforkusæstreng og viðbótar uppsettu afli fyrir framtíðar notkun hér innanlands eiga að koma 448 megavött úr viðbótum eða stækkunum núverandi virkjanna. 124 megavött úr nýjum vatnsaflsvirkjunum. 150 megavött úr smærri vatnsaflsvirkjunum. 830 megavött úr jarðvarmavirkjunum. 550 megavött úr vindorkugörðum á landi.
 1. Hagkvæmnin sem kynnt er í skýrslunni byggist alfarið á vilja Breta til þess að greiða verkefnið niður. Ábatinn sem menn ræða um er með öðrum orðum byggður inn í þær forsendur, sem menn gefa sér varðandi alla útreikninga. Þetta gildir líka um þá útreikninga sem Analytica hefur gert á þjóðhagslegum áhrifum. Ábatinn er því skilyrtur greiðsluviljja Breta og tölurnar um þjóðhagslegan ábata ekki marktækar nú.
 1. Aldrei hefur verið lagður raforkusæstrengur sem er jafn langur og aldrei á viðlíka dýpi. Norður Atlantshafið er alþekkt veðravíti. Í skýrslunni er reiknað með að strengurinn verði úti (vegna viðhalds eða bilanna) um 8% tímans, en aðrar heimildir benda á að mögulega geti þessi tími verið umtalsvert meiri. Ljóst er að áhættan er umtalsverð og því óvíst að umrædd 8% endurspegli nægilega vel þessa áhættu.
 1. Skýrslan bendir á fleiri óvissuatriði, svo sem efnahagslega þróun í heiminum og í Evrópu, óvissu um áhættu við virkjun jarðvarma og fleira sem hefur áhrif á mat á þeirri ávöxtunarkröfu, 7,9%, sem gengið er út frá í útreikningum
 1. Með lögum frá 2003 erum við hluti af innri markað ES og fyrirtæki í opinberri eigu verða að haga sér samkvæmt því. Það merkir, meðal annars að orkufyrirtæki geta ekki farið út í byggingu nýrra orkuvera nema orkuverðið sé nægilega hátt til að fjárfestingin verði arðbær. Skýrsluhöfundar taka mið af þessum lögum þegar þeir raða orkuverum í framkvæmdaröð með því að taka hagkvæmustu virkjanirnar fyrst og hinar dýrari síðar.
 1. Reiknuð árleg áhrif hærra raforkuverðs á aðrar atvinnugreinar en stóriðju eru á bilinu 2,1 – 4,2 milljarðar króna. Þetta eru viðbótar álögur á íslenskt atvinnulíf ef ekki yrði hugað að mótvægisaðgerðum.
 1. Skoðun skýrslunnar leiðir í ljós, að ódýrustu framkvæmdirnar sem koma fyrst eru  hagvæmustu jarðvarmaverin og síðan stór vatnsorkuver. Endurnýjun og stækkun eldri stöðva koma aftar í framkvæmdaröðinni. Síðan sýnir skýrslan, að þegar orkukerfið hefur verið stækkað um sem nemur 2 TWh/ár í vinnslugetu, þá þarf orkuverðið að hafa hækkað um 30% til að viðhalda hvatanum til að halda áfram að virkja. Hækki heildsöluverðið ekki samhliða, þá er hætt við að hér verði ekki virkjað meir og orkuskortur verði.
 1. Stærri hluti orkusölu landsins er bundin í langtímasamninga þannig að hækkanir þær sem orsakast af lögum innri markaðar ES munu fyrst og fremst bitna á almennum neytendum og íslenskum fyrirtækjum. Þessar hækkanir eru vanáætlaðar í skýrslunni.
 1. Í raun staðfestir skýrslan að efnahagsleg áhrif raforkusæstrengsverkefnisins hér á landi byggjast fyrst og fremst á tilflutningi á fjármagni, frá heimilium og fyrirtækjum landins til orkufyrirtækja, stóriðjufyrirtækin eru með fasta langtíma samninga og því mundu þessar hækkanir ekki bíta þau fyrr en semja þyrfti á nýjan leik,.
 1. Spurningin sem stjórnvöld standa frammi fyrir í þessu samhengi er þessi: Eigum við að klára þessa hagkvæmu virkjunarkosti núna, með sæstreng og samhliða hraðri uppbyggingu stóriðju, eða eigum við að flýta okkur hægt og láta heimilin og atvinnulífið í landinu njóta góðs af þessum hagkvæmu virkjunarkostum sem eftir eru um langa framtíð?

 

Comments

comments