Það var í tíð vinstristjórnar Steingríms og Jóhönnu sem leyfum fyrir kísilmálmbræðslum var dreift eins og mandarínum fyrir jól. Þessi ríkisstjórn sem taldi fólki trú um að hún væri græn, gékk fram með hörku gegn áformum um byggingu álvers í Helguvík til þess að blekkja þjóðina í það að halda að græna nafnið stæði fyrir eitthvað. Enda höfðu flokkarnir tveir sem mynduðu ríkisstjórnina, VG og Samfylking verið í fararbroddi þeirra sem voru búnir að gera álbræðslurnar að höfuð andstæðingum náttúrunnar.

Til þess að friða heimamenn á Suðurnesjum sem þegar höfðu lagt í mikinn kostnað í innviðauppbyggingu á svæðinu var samþykkt að þar mætti reisa tvö stykki málmbræðslur. Nánar, kísil málmbræðslur. Þetta í aðeins eins og hálfs kílómetra fjarlægð í loftlínu frá íbúabyggðinni í Reykjanesbæ. Eina málmbræðslan sem starfrækt hefur verið á Íslandi hingað til er Járnblendið á Grundartanga og allir sem eitthvað hafa fylgst með vita að þar hafa verið vandamál í gegnum tíðina, sérstaklega með reykræstingu. Þó hefur stjórnendum þar tekist að fækka þessum tilfellum verulega og stefna að því að þau heyri sögunni til. En reynslan ætti að kenna okkur eitthvað, eða hvað?

Þessa daganna er verksmiðja United Silicon að hefja starfsemi í Helguvík. Strax eftir nokkurra daga starfsemi á lágmarks afköstum eru bæjarbúar farnir að kvarta undan súrri brunalykt, sviða í augum og óþægindum í öndunarfærum. Einungis einn ofn af fjórum fyrirætluðum er komin á staðinn og í notkun. Ljóst er af fréttum úr Reykjanesbæ að strax á fyrstu dögum verksmiðjunnar hefur reykræsting farið fram úr hófi. Kallar þetta mál því á sértækar aðgerðir og endurskoðun starfsleyfis.

Skoðum aðeins starfsleyfið. Rétt er að rifja hér upp að forráðamenn United Silicon lögðu inn til umhverfisstofnunar falska pappíra sem umhverfisstofnun tekur samt gilda. Danska verkfræðistofan COWI sver af sér útreikninga um loftmengun kísilmálmverksmiðju United Silicon sem risin er í Helguvík. Í minnisblaði sem United Silicon skilaði til Skipulagsstofnunar í febrúar 2013 er fullyrt að COWI hafi unnið mengunarspána og merki fyrirtækisins notað á minnisblaðinu. Þessu neitar COWI og sendi fyrirtækið Skipulagsstofnun bréf í febrúar 2015,  þar sem farið var fram á að nafn og merki fyrirtækisins verði fjarlægt af umræddu minnisblaði. Féllst stofnunin á það en dregur þó ekki niðurstöðurnar sem koma fram í minnisblaði United Silicon í efa.

Stofnunin er með staðfestingu á því að gögnin sem lögð voru fram eru fölsuð en ákveður að draga niðurstöður fölsuðu gagnanna ekki efa! Er þetta embættisfærsla sem þjóðin getur sætt sig við?

Í þeim reglum og reglugerðum sem um þetta fjalla er tekið sérstaklega fram að ef útgefandi starfsleyfis telur að ófullnægjandi upplýsingar séu í umsókn um starfsleyfi og skal þá vísa henni frá skriflega og gera grein fyrir þeim þáttum sem vanreifaðir eru. Falsaðar mengunarspár sem settar eru fram í nafni fyrirtækis sem segist aldrei hafa unnið þær. Hljóta teljast vera meiriháttar vanreifun. Þetta vekur upp þá spurningu hvort stofnunin sé starfi sínu vaxin.

Ljóst er að íbúum Reykjanesbæjar er brugðið, áhrif United Silicon á lífsgæði bæjarbúa þessa fyrstu daga eru veruleg. Íbúum bæjarins hlýtur því að verða hugsað til Steingríms J. Sigfússonar, Katrínar Júlíusdóttur og Svanhvítar Svavarsdóttur sem var umhverfisráðherra þegar súrnar í augum.

Undirskrift ISC

Myndin er frá undirskrift ráðamanna og The Icelandic Silicon Corporation (ISC) eða United Silicon. Á myndinni eru frá hægri:

Luis Arreaga, sendiherra Bandaríkjanna
Magnús Garðarsson, forstjóri ISC eða United Silicon
Katrín Júlíusdóttir, iðnaðarráðherra
Alan Kestenbaum, stjórnarformaður Globe Specialty Metals Inc
Steingrímur J. Sigfússon, fjármálaráðherra
Árni Sigfússon, bæjarstjóri Reykjanesbæjar

 

Comments

comments