Ég tel reyndar að þessi þjóðaratkvæðisgreiðsla sé búin að eiga sér stað því það er alveg ljóst að Sigmundur væri ekki forsætisráðherra í dag og Framsóknarflokkurinn hefði ekki unnið sinn stærsta kosningasigur, ef ekki hefði verið fyrir loforð um afnám verðtryggingar og leiðréttingar á forsendubresti heimilanna. Með öðrum orðum þá má alveg halda því fram með góðum rökum að búið sé að kjósa um afnám verðtryggingar meðal þjóðarinnar.

Nú er hins vegar það orðið deginum ljósara að Sjálfstæðisflokkurinn ætlar að svíkja samstarfsflokkinn sinn í ríkisstjórninni um þetta brýnasta hagsmunamál heimilanna. Það liggur fyrir að afnám verðtryggingar er m.a. getið í stjórnarsáttmálanum. Á þessari forsendu varpar forsætisráðherra þessari hugmynd nú fram, því hann finnur rækilega fyrir hnífasettinu sem sjálfstæðismenn hafa nú sett í bak hans í þessu máli.

Forsætisráðherra hefur núna ekki nema tvær leiðir í þessu máli er lýtur að því að efna loforðið um afnám verðtryggingar, í ljósi þess að sjálfstæðismenn ætla að svíkja Framsóknarflokkinn.

Hið fyrra er að Framsóknarflokkurinn leggi fram frumvarp um afnám verðtryggingar og í því frumvarpi þarf að koma fram að sett verði þak á óverðtryggðavexti. Með þessari leið er hægt að kalla fram hverjir á Alþingi Íslendinga ætla raunverulega standa með íslenskum neytendum. Hið síðara er að láta framkvæma án tafar þjóðaratkvæðisgreiðslu um afnám verðtryggingar og sett verði þak á óverðtryggðavexti.

Þetta eru einu leiðirnar sem forsætisráðherra getur gert í ljósi þess að sjálfstæðismenn ætla að svíkja framsóknarmenn í þessu máli, en takið eftir Sigmundur væri alls ekki að nefna þetta nema að hann veit að sjálfstæðismenn ætla að svíkja flokkinn um þetta mikilvæga hagsmunamál almennings.

Comments

comments