SDG_PBK

Páll Bragi Kristjánsson skrifar á Facebook:

Fréttir hafa borist úr amk tveimur kjördæmum, að tilteknir Framsóknarmenn ýmist ætli að segja sig úr flokknum eða styðja ekki flokksformanninn til áframhaldandi forystu. Ekki liggja opinberlega fyrir nákvæmar ástæður fyrir þessari ólgu aðrar en þær, sem rekja má til þeirrar staðreyndar, að Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni var með sérstæðum hætti beinlínis steypt úr stóli forsætisráherra Íslands.

Langt er frá því, að skýringar á svo einstæðum atburði hafi komið fram með fullnægjandi hætti. Í mínum huga leikur ekki vafi á, og má blasa við öllum, að honum var veitt skipulögð fyrirsát með því markmiði að skaða hann persónulega og koma úr embætti, – helst einnig allri ríkisstjórn landsins.

Þeir aðilar, sem þar lögðu hönd á plóginn standa frammi fyrir að skýra sinn þátt í aðförinni fyrir þjóðinni fyrr en seinna, þar sem sumir virðast vera hreinir gerendur en aðrir hugsanlega aðeins nytsamir sakleysingjar, sem þó var e.t.v. ekki svo leitt sem létu af ýmsum ástæðum. – En rangtúlkun á og þekkingarleysi í framsetningu upplýsinga úr Panama-skjölunum voru eindregið notuð sem yfirvarp allra sem að málinu komu. -BASTA.-

Ekki verður deilt um þær staðreyndir, að Sigmundur Davíð Gunnlaugsson kom sem stormsveipur inn í íslensk stjórnmál á erfiðum tímum og leiddi Framsóknarflokkinn til stórsigurs í kosningunum 2013. Hann var í forystusveit þeirra vösku manna, sem leiddu baráttuna gegn því, að íslensku þjóðinni yrði gert að bera ábyrgð á og greiða skuldir óreiðumanna eins og Davíð Oddsson, þáverandi Seðlabankastjóri, orðaði svo snyrtilega og afgerandi í sjónvarpsviðtali 8. október 2008. Sigmundur Davíð barðist fyrir allsherjar skuldaleiðréttingu heimilanna í tíð vinstri stjórnanna 2009 – 2013, en hafði ekki erindi sem erfiði. Hann lofaði skuldaleiðréttingu í kosningabaráttunni 2013 og einnig því að endurheimta á réttmætan hátt fenginn, sem kröfuhöfum hinna föllnu banka hafði fallið í skaut, þegar Steingrímur J. Sigfússon, þáverandi fjármálaráðherra, braut gegn neyðalögunum. Fyrir þetta var Sigmundur Davíð hæddur og spottaður í kosningabaráttunni og sakaður ótæpilega einnig um ábyrgðarleysi í fyrirheitum. Við þetta allt stóð hann samt sem forsætisráðherra í ágætri samvinnu við Sjálfstæðisflokkinn og fjármálaráðherrann, Bjarna Benediktsson.

Enn hafði hann á stefnuskrá ríkisstjórnar sinnar að afnema vísitölubindingar lána og uppstokkun fjármálastofnana, sem hvorutveggja er vitanlega griðarlegur þyrnir í augum fjármálafurstanna. Þrátt fyrir mikinn kosningasigur og staðfestu við framgang meginmála í ríkisstjórn, eða e.t.v. þessvegna, hafa pólitískir andstæðingar, flestir fjölmiðlar og álitsgjafar stanslaust undanfarin ár haldið uppi skopmynd af mannninum og niðurlægt hann af megni að minnsta tilefni.

Sigmundur Davíð er ungur og öðruvísi stjórnmálamaður en flestir aðrir. Hann hefur á ýmsan hátt gefið á sér höggstað með dreifðum áhugaefnum, e.t.v. ekki beðið þess nægjanlega að stækka inn í skikkju foringjans, hann hefði t.d. örugglega mátt sýna virðulegri framkomu í þinginu. En fyrr má nú rota en dauðrota í óþolinmæði og ákafa að geta aldrei látið hann njóta sannmælis. Þessvegna m.a. lá hann vel við höggi í almannavitund, þegar honum var komið að óvörum í alræmdum sjónvarpsþætti og hann brást í framkomu sinni, sem gera verður ráð fyrir, að menn í hans stöðu eigi að ráða við, hvað sem öðru líður. Trúverðugleikinn rauk út í veður og vind, — og gleymd voru, sem hendi væri veifað, öll þau stóru mál, sem hann hafði komið með kjarki sínum og staðfestu til leiðar fyrir land og þjóð á stuttum valdatíma.

Sennilega er þrautin þyngri að endurheimta traust á ný, sem þannig hefur farið fyrir, jafnvel þótt skýringar komi fram og leiðréttingar, sem sýna rangindi og bellibrögð. Þetta hlýtur að vera brekkan, sem Sigmundur Davíð Gunnlaugsson þarf að sækja upp um þessar mundir í óvissu um, hvernig miða muni, eins og fréttir af Framsóknarmönnum úti á landi geta bent til, sem vikið var að i upphafi. En fordómalaust skoðað liggur fyrir, að ekki hefur verið sýnt fram á lögbrot eða skattsvik, ekki ósannindi og siðfræðilegar staðhæfingar eða vangaveltur eftiráspekinga eru bara puttinn út um gluggann að mínu mati eins og málum var háttað hjá þeim hjónum. Allar upplýsingar um fjármál þeirra hjóna og skattskil hafa verið lagðar á borðið og ekki er vitað um athugasemdir viðkomandi yfirvalda að ekki sé allt með felldu.

Hvað er þá að?

Fram kom strax og fyrir liggur, að eiginkona fyrrverandi forsætisráðherra á kröfur í þrotabú hinna föllnu banka. Gert hefur verið veður úr því, að þar með hafi ráðherrann setið beggja vegna borðs í samningum um annars vegar stöðugleikaskatt og hinsvegar stöðugleikaframlags, því þar hafi verið einnig um að tefla einkahagsmuni þeirra hjóna. Hér hefur áður verið vakin athygli á, að í því efni skipti aðeins ein spurning máli, nefnilega þessi:

Voru kröfurnar keyptar fyrir eða eftir hrun bankanna?“

Sigmundur Davíð hefur lýst því yfir, að kröfurnar séu upprunalegar.
Þau hjónin verða samt, eins og aðstæðum er háttað, að leggja fram gögn þeirri fullyrðingu til stuðnings.
Að svo búnu ættu ekki að vera meinbugir á, að Framsóknarmenn og kjósendur geti tekið heiðarlega afstöðu til þess, hvort þeir veiti Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni áframhaldandi brautargengi í stjórnmálum.
Að mínu mati væri skaði, að ungur, kjarkaður, hugmyndaríkur og stefnufastur stjórnmálaforingi félli fyrir borð vegna ranginda.

Ég er 72 ára eins og lýðveldið Ísland, fæddur samt undir dönsku konungdæmi. Ég hef kosið Sjálfstæðisflokkinn alla tíð, svo því sé haldið til haga við ofangreindar hugleiðingar.

Comments

comments