Stjórn VR hefur samþykkt að leggja til við stjórn Lífeyrissjóðs verzlunarmanna að laun framkvæmdastjórans, Guðmundar Þ. Þórhallssonar, verði lækkuð sem allra fyrst. Guðmundur er með 41,5 milljónir í árslaun, um 3,5 milljónir á mánuði. Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, vill lækka launin um helming, Viðmiðið eru að laun Guðmundar séu ekki hærri en ráðherra.

Ragnar lagði til við stjórn VR í ársbyrjun að lagt yrði til við stjórn Lífeyrissjóðs verzlunarmanna að sett yrði þak á laun framkvæmdastjóra lífeyrissjóðsins og þau lækkuð umtalsvert. Tillagan var samþykkt. VR á helming fulltrúa stjórnar lífeyrissjóðsins og væntir Ragnar þess að þeir gæti hagsmuna VR í lífeyrissjóðnum og fylgi eftir samþykktum stjórnar.

Ólafur Reimar Gunnarsson, varaformaður sjóðsins, er einn af fjórum fulltrúum VR í stjórninni. Í samtali við RÚV segir hann að málið hafi verið rætt í stjórninni og hún sé með þetta til skoðunar.

„Stjórnin er á því að launin séu orðin of há og að það þurfi að lagfæra,“ segir Ólafur. „Við tökum til athugunar það sem kemur frá stjórn VR og við vitum að Ragnar hefur lagt mikla áherslu á að lækka laun forstjóra lífeyrissjóðsins,“ segir hann.

Ragnar bíður þess að stjórn lífeyrisstjóðsins taki ákvörðun um launalækkun. Ef það verður ekki gert fljótlega hyggst Ragnar kalla saman stjórnarfund hjá VR og mögulega skipa nýja stjórnarmenn í sjóðinn.

Comments

comments