Marínó G. Njálsson skrifar á Facebook:

Mér finnst nauðsynlegt að vekja athygli á þessu máli. Hagsmunasamtök heimilanna hafa látið þýða þrjá dóma Dómstóls Evrópusambandsins (áður Evrópudómstóllinn) í málum sem lúta að óréttmætum skilmálum í neytendalánasamningum. Guðmundur Ásgeirsson, hjá HH, hefur tekið saman sínar niðurstöður, sem mig langar að vitna í örlítið styttar. (Ég vona að ég hafi leyfi til þess.)

„Evrópudómstóllinn ítrekaði í dómi sínum fyrri dómaframkvæmd um að dómstólum væri bannað að breyta skilmálum sem teldust óréttmætir. Jafnframt var vísað til þess að samkvæmt 1. mgr. 6. gr. tilskipunarinnar væri aðildarríkjum skylt að kveða á um það með lögum að neytendur ættu ekki að vera bundnir af óréttmætum skilmálum (líkt og EFTA dómstólinn tók fram í málum E-25/13 og E-27/13) sem þýddi að setja yrði neytandann í sömu stöðu og ef viðkomandi skilmáli hefði aldrei verið til. Þessari grein tilskipunarinnar væri ætlað að hafa letjandi áhrif gegn notkun óréttmætra skilmála (með fjárhagslega neikvæðum afleiðingum fyrir hinn brotlega aðila) en með því að takmarka rétt neytenda til endurgreiðslu væri hætta á að dregið yrði úr þeim letjandi áhrifum sem ákvæðinu er ætlað að hafa. Að takmarka réttaráhrif ógildingar við tímabilið frá og með 9. maí 2013 jagngildti því hins vegar að svipta neytendur réttinum til fullrar endurgreiðslu þess sem þeir hefðu ofgreitt fyrir þann tíma. Slík vernd væri ófullkomin og ófullnægjandi og teldist hvorki nægileg eða skilvirk leið til að koma í veg fyrir áframhaldandi notkun slíks skilmála, sem stríddi 1. mgr. 7. gr. tilskipunar 93/13. Hin umrædda dómaframkvæmd Hæstaréttar Spánar bryti því jafnframt í bága við 1. mgr. 6. gr. tilskipunar 93/13.

Þessi dómur er frekar sterkur fyrir neytendur en af honum má m.a. draga eftirfarandi ályktanir:

1. Bannað er að breyta innihaldi óréttmætra skilmála heldur á einfaldlega að fella þá brott án þess að neitt komi í staðinn ef samningurinn getur þrátt fyrir það haldið gildi sínu áfram (þetta er hér ítrekað).

2. Bannað er takmarka það tímabil sem réttaráhrifa úrskurðar um óréttmæti gætir heldur á neytandinn rétt til fullrar endurgreiðslu alls sem hann hefur ofgreitt frá því að samningurinn var gerður í upphafi.

3. Það eitt að skilmálar séu (formlega) löglegir og málfræðilega skýrir kemur ekki í veg fyrir að þeir geti talist óréttmætir, einkum ef fjárhagsleg áhrif þeirra hafa ekki verið kynnt rækilega fyrir neytendum.

4. Þó svo að skilmálar sem varða aðalefni samnings séu almennt undanþegnir gildissviði tilskipunar 93/13, falla þeir engu að síður undir það ef þeir eru óljósir eða gegnsæi skortir við samningsgerðina.

5. Réttur einstakra neytenda til að sækja sér bætur í formi endurgreiðslu kemur ekki í veg fyrir að neytendasamtök geti krafist lögbanns til að stöðva notkun óréttmætra skilmála. Að sama skapi eiga niðurstöður í slíku lögbannsmáli ekki að skerða á neinn hátt þann rétt sem einstakir neytendur eiga til fullrar endurgreiðslu þess sem þeir hafa ofgreitt áður en slíkt lögbann var lagt á viðkomandi skilmála.

Athyglisvert er að kjarni málsins í þessum dómi eru einfaldlega skilmálar um lágmark breytilegra vaxta. Í sjálfu sér er ekkert sérstaklega flókið eða óljóst við slíka skilmála en samt voru þeir dæmdir ógildir, að því er virðist vegna þess að þeir hafi ekki verið kynntir sérstaklega fyrir neytendum og þar af leiðandi hafi verið skortur á gegnsæi við samningsgerðina. Einnig er rétt að hafa í huga að á þeim tíma sem þessir samningar voru gerðir féllu fasteignalán ekki undir sérreglur tilskipunar um neytendalán og þess vegna byggist málið eingöngu á hinni almennu tilskipun 93/13 um óréttmæta skilmála í neytendasamningum.

Loks má svo kannski spyrja sig: Ef nafnvaxtagólf er svo flókið að það sé ógilt ef það er ekki þeim mun betur betur útskýrt fyrir neytendum, hvað má þá segja um íslensku verðtryggðu lánin?“

Þetta voru orð Guðmundar, en svo ég bæti við minni túlkun. Þessi niðurstaða er í dúr og moll við niðurstöðu EFTA-dómstólsins í málum nr. E-25/13 og E-27/13 (eins og Mummi bendir á) og þýðir:

1. Verðtrygging er óréttmætur skilmáli í neytendalánssamningi og neytandinn ætti ekki að vera bundin af henni né nokkuð koma í staðinn.
2. Hæstarétti var óheimilt að breyta áður gengistryggðum lánssamningum í dómi nr. 471/2010 og ákveða að seðlabankavextir ættu að koma í staðinn fyrir LIBOR vexti. Hæstiréttur skýlir sér bak við að hann hafi ekki breytt samningunum, en hann gerði það. Hann ákvað að vaxtaákvæði saminganna væri óskuldbindandi og felldi það út. Það mátti hann ekki gera, því skilmálinn var ekki óréttmætur gagnvart neytandanum.

Þetta þýðir hins vegar ekki, að Alþingi hafi ekki mátt setja lög nr. 151/2010, Árna Páls-lögin. Löggjafinn hefur nokkuð frjálsar hendur um lagasetningu, meðan þau lög brjóta ekki gegn stjórnarskránni. Spurningin er hins vegar hvort Alþingi hefði sett Árna Páls-lögin, ef niðurstaða Hæstaréttar hefði verið á hinn veginn í dómi nr. 471/2010.

Þýðingarnar má lesa hér

 

Comments

comments