Þennan góða pistil má finna á blog.is, síðu Tómasar Gunnarssonar. Hann er hér birtur í heild sinni eins og hann birtist á blogsíðu Tómasar. Slóðin á síðuna hans er hér.

——-

Hugsanlegur rafmagnssæstrengur frá Íslandi til Bretlands hefur verið allnokkuð í umræðunni undanfarið og sitt sýnst hverjum.

Ég hef skrifað um þær vangaveltur áður og ávallt verið skeptískur á slíkar áætlanir, en ekki lokað á frekari athuganir eða staðreyndasöfnun.

En í íslenskum fjölmiðlum hefur reglulega mátt lesa fréttir um hve háar niðurgreiðslur breta á endurnýjanlegum orkugjöfum séu og hve hagnaðarvon íslendinga sé gríðarleg.  Jafnframt hefur verið fjallað um yfirvofandi orkuskort í Bretlandi og hve mikil búbót fyrir þá sæstrengur gæti orðið í þeim efnum.

Enn fremur hefur mátt lesa hve gríðarlega styrki bretar muni veita fyrirhuguðu kjarnorkuveri sem frakkar og kínverjar hyggjast reisa. Sá styrkur, ef ég hef skilið rétt er fyrst og fremst í formi tryggingar á verulega háu rafmagnsverði.

Það er alveg rétt að bretar hafa í vaxandi mæli áhyggjur af háu raforkuverði og orkuskorti. En fréttirnar í Bretlandi undanfarna daga hafa aðallega snúist um hvernig draga eigi úr niðurgreiðslum á endurnýjanlegri orku og vinda ofan af því kerfi.

Meginstefnan eigi að vera að niðurgreiðslur séu tímabundnar.

Hvað varðar verðtryggingu til kjarnorkuvers, sem eru verulega háar, hef ég alltaf skilið það svo, að það sé gert vegna þess að kjarnorkuverið geti það sem endurnýjanlegir orkugjafar og sæstrengur getur ekki lofað, boðið upp á trygga og stöðuga orkuafhendingu.

Persónulega get ég því ekki séð að framtíðarhorfur fyrir íslenska orkusölu, um sæstreng til Bretlands yrði jafn gjöful og góð og margir vilja meina.

Hitt er svo að mér hefur þótt vanta í umræðuna um sæstreng hvar og hvernig eigi að virkja til að selja orku. Því þótt að margir láti í veðri vaka að íslendingar eigi umframorku sem væri einmitt það sem nota á fyrir strenginn, þá þykir mér ekki trúlegt að nokkur fjárfesti í streng á milli Íslands og Bretlands með því fororði að einungis umframorka fari um strenginn.  Það þýddi þá að í slæmu árferði og aukinni orkunotkun á Íslandi væri jafn líklegt og ekki að ekkert rafmagn væri flutt um strenginn.

Slíkt hljómar ekki sem vænlegur fjárfestingarkostur í mínum eyrum.

Það þarf að ræða málið í heild sinni og ekki láta nægja að hlusta á hvað hagnaðurinn „geti“ orðið gríðarlegur.

En það má líka velta því fyrir sér, ef að útlit er fyrir að íslendingar vilji virkja frekar og útlit er fyrir að raforka verði umfram eftirspurn á Íslandi, hvort að ekki sé margir aðrir leikir í stöðunni.

Væri til dæmis ekki tilvalið fyrir Landsvirkjun, í samstarfi við atvinnuþróunarfélög, sveitarfélög og aðra hagsmunaaðila að fera í kynningarherferð miðaða á lítil og miðlungsstór iðnfyrirtæki í Bretlandi og annars staðar í Evrópu, þar sem lögð er áhersla á lágt rafmagnsverð á Íslandi og afhendingaröryggi.

Sé raunveruleg hætta á orkuskorti í Bretlandi, jafnframt því að orkuverð sé verulega lægra á Íslandi, ætti slíkt að vera kostur sem ýmis fyrirtæki myndu í það minnsta velta fyrir sér.  Vissulega er rafmagn misjafnlega hátt kostnaðarhlutfall, þannig að finna þyrfti geira með hlutfallsega mikla rafmagnsnotkun.  Afhendingaröryggið ætti svo að vera trompið.

Því eftir sem mér skilst, er raforkuverð í Bretlandi ekki það hæsta í Evrópu, þó að það sé vissulega hátt.

industrial electricity prices including taxes

 

 

 

 

electricity prices including taxes extra large

 

 

 

 

 

Stöplaritin eru fengin héðan.

P.S. Allar svona vangaveltur verða hins vegar hálf hjákátlegar þegar lesnar eru fréttir um að Landsvirkjun hafi þurft að tilkynna um skerðinu á orkuafhendingu (sem líkega verður þó ekkert af og að iðnfyrirtæki hér og þar um landið (millistór fyrirtæki) geti ekki fengið þá orku sem þau vilja.

Slíkt ætti auðvitað að vera brýnasta verkefni Landsvirkjunar og Landsnets.

Comments

comments