Andri vilhjalmur

Vilhjálmur Birgisson verkalýðsleiðtogi á Akranesi sendir Andra Snæ Magnasyni rithöfundi tóninn í pistli sem hann birtir á Facebook síðu sinni. Ástæða þessa pistils eru ummæli Andra í grein á Pressan/Eyjan sem birtist í nóvember síðastliðnum slóðin á hann er hér. Pistill Vilhjálms er hér að neðan í heilu lagi.

„Í nóvember í fyrra spyr Andri Snær Magnason hvers vegna íslensk ungmenni ættu að vilja vinna í stóriðju í sinni heimabyggð þegar þeim stendur allur heimurinn til boða. Andri segir líka í þessari grein sem hann skrifaði að þeir sem alast upp á Íslandi njóti þeirra „forréttinda“, ólíkt flestum jarðarbúum í gjörvallri mannkynssögunni, að geta valið sér starfsvettvang í öllum heiminum.

Það má vel vera rétt hjá Andra að ungt fólk hér á landi njóti þeirra forréttinda að geta valið sér starfsvettvang í öllum heiminum. Hinsvegar er alveg ljóst að fáir njóta þeirra forréttinda sem hann nýtur, að geta verið á listamannalaunum í rúm 9 ár og fengið frá íslenskum skattgreiðendum rúmar 38 milljónir og nýtt tímann sinn vel í að kasta rýrð á önnur störf sem að eru unnin hér á landi eins og til dæmis stóriðjustörfin. En þessi störf eru að skila íslensku þjóðarbúi gjaldeyristekjum sem hjálpa við að íslenskt samfélag geti haldið hér úti góðu velferðarkerfi, menntakerfi og öðrum nauðsynjum sem hvert samfélag þarf að búa við. 

Ég veit að fjölmargir starfsmenn sem starfa í stóriðjum vítt og breitt um landið eru farnir að taka þessa neikvæðu umræðu um þá starfsemi sem innt er af hendi í stóriðjunum, inn á sig og finnst hún oft á tíðum vera afar óvægin. Sem betur fer hefur okkur tekist að láta þessa stóriðju greiða mun betri laun en gengur og gerist á hinum almenna vinnumarkaði en þeirri vinnu við að bæta kjör þeirra sem starfa í þessum verksmiðjum er hvergi nærri lokið.

Það er dapurlegt að heyra rithöfundinn sem skilað hefur einni bók á síðustu 10 árum og verið á launum hjá íslenskum skattgreiðendum ráðast sífellt á störf sem hér skapa íslensku samfélagi gjaldeyristekjur því það er mikilvægt að við sýnum öllum störfum virðingu og hættum að tala þau niður. Það er ljóst að ef ekki nyti við fyrirtækja sem afla hér gjaldeyris fyrir íslenskt þjóðarbú þá væri hann og aðrir listamenn hér á landi ekki að njóta þeirra forréttinda að geta verið á listamannalaunum í allt að 10 ár eins og í hans tilfelli, listamannalaunum sem nema tæpum 40 milljónum á umræddu tímabili.“

Comments

comments