Össur Skarphéðinsson ritar á Facebook vegg sinn:

„Vogunarsjóðir „taka snúning“ á Íslandi

Við hádegisfréttir RÚV um kaup vogunarsjóðanna á stórum hlut í íslenskum banka kom fernt upp í samtali mínu og kattanna á Vesturgötu:

Í fyrsta lagi, ríkisstjórnin stimplar án þess að hiksta að vogunarsjóðir eignist stóran hlut í íslenska bankakerfinu. Þetta eru sömu sjóðir og tóku stöðu gegn íslensku krónunni og unnu leynt og ljóst að falli hennar. Hvað sem líður lögum og reglum er þetta varla innan þeirra mórölsku marka sem ríkisstjórn landsins getur leyft sér. 

Í öðru lagi, enginn veit hvaða einstaklingar eru meðal raunverulegra eigenda. Fjármálaráðherrann segir að það sé bagalegt, en gerir að öðru leyti engar athugasemdir við það – og klínir svo ábyrgðinni á ríkisstjórn Sigmundar Davíðs. Ég var ekki aðdáandi hennar, en fyrr má nú fyrrvera.

Í þriðja lagi, þá var það um skeið nánast opinbert leyndarmál á síðasta kjörtímabili að í röðum vogunarsjóða var rætt um að „taka snúning“ á Íslandi áður en þeir hyrfu endanlega héðan með því að eignast hlut í bönkunum. Það var tekið svo alvarlega að sérfræðingar gengu á fund forystumanna ríkisstjórnarinnar til að vara við því. Nú er því tekið með fagnaðarlátum af íslenskum ráðherrum.

Í fjórða lagi, þá er upplýst að einn sjóðanna sem keypti stóran hlut i Arion banka þurfti fyrir fimm mánuðum að greiða 23 milljarða í sektir fyrir stórfelldar mútugreiðslur i fimm ríkjum Afríku. Einu sinni þurftu menn að vera „fit and proper“ til að mega fara með hlut í íslenskum bönkum. Þurfa menn ekki að vera „fit and proper“ eftir að Viðreisn og Björt framtíð fóru í ríkisstjórnina?

Upplýsingar Sigmundar Davíðs um mútusjóðinn sem nú er orðinn eigandi að íslenskum banka eru þyngsta höggið sem ríkisstjórninni hefur verið greitt. Að öðru leyti hafði stjórnarandstaðan lítið um málið að segja í hádegisfréttum.“

Comments

comments