Á sama tíma og mörg þjóðlönd styðja í orði innleiðingu rafbíla líkt og við gerum hér á landi, sker Noregur sig úr. Þar á bæ hefur þjóðþingið sett sér langtíma stefnu sem inniheldur það metnaðarfulla markmið að allir nýir innfluttir bílar verði án losunar gróðurhúsalofttegunda árið 2025. Norðmenn segja að þeir muni heimila sölu á tvinn bílum (blöndu af raforku og jarðefnaeldsneyti) lengur.

Nú hafa borist fréttir af því að Hollendingar hyggist feta í fótspor Norðmanna. Þar hefur tillaga sem er samhljóma þeirri norsku þegar verið rædd á þjóðþingi þeirra og verulegar lýkur eru á að hún verði samþykkt. Nokkrar vangaveltur hafa verið á hollenska þinginu vegna þess hvernig þessar hugmyndir koma til með að falla inn í regluverk Evrópusambandsins. Tæknilega þurfa Hollendingar að samþykkja að bílar sem Evrópusambandið heimilar í sínum reglum séu löglegir.

Tesla Model-S, sem leigubíll í Amsterdam

Tesla Model-S, sem leigubíll í Amsterdam

Hollendingar vilja stilla sér upp við hlið þeirra sem fremst fara í þessum málum, Noregi. Þeir eru með verulega afslætti af innflutningsgjöldum á rafmagnsbifreiðum. Enda eru þessi tvö lönd nánast þau einu í heiminum þar sem þú sérð Tesla Model S lúxus fólksbíl notaðan sem leigubíl.

Í nokkurn tíma hefur verið talað um möguleika á því að við Íslendingar hefðum allt til þess að taka forystu þeirra þjóða sem vilja rafbílavæða land sitt. Sú mynd fellur einstaklega vel að hreinni náttúru og grænni orkunotkun landsins. En við erum að tapa þessu tækifæri.

Hvar er uppbygging orkufyrirtækjanna á innviðum til að styðja þess þróun? Hvar er langtíma stefna Íslands í rafbílavæðingu þjóðarinnar? Hér með er auglýst eftir henni. Minnkum þrasið á Alþingi sem skilar okkur engu og mörkum okkur stefnu í þessum málum sem er til jafns við þá sem standa í fremstu röð.

Comments

comments