johnfordthequieÍslendingar eru flestir slegnir yfir þeim fréttum að hundruð aðila séu með félög í skattaskjólum, af því er virðist, til þess eins að stela undan skatti. Fjórir aðilar hafa sagt af sér vegna þeirrar fjölmiðlaumfjöllunar sem af þessu hefur hlotist og nokkrir aðrir eru nefndir til sögunnar sem verið að höggva í.

Enga samúð hefur almenningur með þeim sem sekir eru í þessum málum en þá þarf að dæma af þar til bærum yfirvöldum. Enginn þeirra, sem hingað til hafa verið teknir opinberlega af lífi, hafa verið ákærðir, hvað þá dæmdir. Sú aðferð að nokkrir fjölmiðlar velji einstaka einstaklinga til umfjöllunar og matreiði þeirra sögu undir drungalegri tónlist þannig að þeir hljóti að vera sekir í augum áhorfenda, er frekar ógeðfelld.

Menn geta velt því fyrir sér hvort einn höfuðglæpurinn, sem hingað til hefur verið framinn, sé meðferð persónuupplýsinga af þeim fjölmiðlum sem eru með Panamaskjölin undir höndum.
Fréttaflutningurinn, sem nú hefur staðið í nokkurn tíma, er vel undirbúinn og viðtöl skipulögð til þess eins að sýna aðila í saknæmu ljósi. Búin er til tilgáta sem síðan er borin undir „sérfræðinga“. Sérfræðingurinn tjáir sig svo um sviðsmyndina og áhorfandinn upplifir að viðkomandi einstaklingur sé sekur. Þessa aðferð nota aðeins lögmenn götunnar við sína rannsókn og dæma sjálfir í beinni útsendingu. Jafnframt má segja að þeir klári refsinguna með því að eyðileggja mannorð viðkomandi einstaklinga þrátt fyrir að engin sönnun liggi fyrir, einungis getgátur.

Síðasta útspilið eru systkin sem hafa sett sig í samband við Kastljós og viðurkenna stórfelld skattsvik á föður sinn en telja sig geta tekið bræður sína með til þess eins,að því virðist, að hefna sín. Kastljós leggur svo heilan þátt undir á besta útsendingartíma án þess að sönnun sé lögð fram í málinu. Spurningin er hvort hlutverk RÚV sé ekki farið að skarast á við hlutverk dómstólanna í landinu

Erfitt er að segja til sekt eða sakleysi þeirra sem eiga félög í skattaskjólum. Það verða til þess bær yfirvöld að dæma um. En það er alveg ljóst að það gera ekki blaðamenn þótt þeir séu færir um að skrifa æsifréttir og búa til sögur.

Það verður að teljast undarlegt að lögreglan, skattrannsóknarstjóri eða persónuvernd fái ekki þessi gögn eða hvers vegna þeir grípa ekki til aðgerða vegna þessa máls er ráðgáta. Yfirvöld hafa rannsóknarskyldu og dæma um sekt eða sakleysi. Þá fyrst er eðlilegt að fjölmiðlar segi okkur fréttir af þeim málum og niðurstöðu þeirra.

Comments

comments